Skip to main content

Halda á vit nýrra ævintýra eftir sölu á Hótel Tanga á Vopnafirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. sep 2025 10:44Uppfært 17. sep 2025 11:19

Gengið var frá sölu á Hótel Tanga á Vopnafirði fyrr í þessum mánuði til útgerðarfyrirtækisins Brim en þar með lauk ellefu ára hótelævintýri hjónanna Árnýjar Birnu Vatnsdal og Gísla Arnars Gíslasonar. Meginástæðan erfið veikindi Árnýjar.

Hjónin tóku við rekstri Hótels Tanga, eina hótelsins í bænum sjálfum, árið 2014 en snemma þess árs hafði rekstrarfélag þess farið á hausinn. Á þeim tíma höfðu þau rekið hinn þekkta söluturn Ollasjoppu um tveggja ára skeið með góðum árangri sem varð þeim hvatning til að hugsa stærra. Leigðu þau því hótelið um eins og hálfs árs skeið áður en þau keyptu reksturinn allan.

 Vel réttu megin við núllið

Þrátt fyrir þau hafi síðan þá þurft að yfirstíga ýmsar hindranir í rekstrinum tókst þeim að reka staðinn vel réttu megin við núllið öll árin nema eitt að sögn Gísla.

 „Þetta var bara rétti tímapunkturinn fyrir okkur að selja. Eiginkonan greindist með krabbamein síðasta haust og það tekið töluvert yfir okkar líf síðan svo illa er hægt að einbeita sér að hótelrekstri. Hún verður í meðferð alveg fram að næstu áramótum svo það er ágætt að geta nú einbeitt okkur að því að hún nái fullri heilsu á ný. Þetta var meginástæða sölunnar því við höfðum alveg hug á að halda áfram með þetta verkefni okkar og það, merkilegt nokk, gengið vel öll árin nema yfir Covid þegar reksturinn var sérstaklega erfiður.“

Víða tækifærin

Gísli og Árný létu þó hótelreksturinn ekki nægja því þau hafa jafnframt rekið tjaldsvæði bæjarins undanfarin ár sem og sinnt matseld fyrir bæði leik- og grunnskóla Vopnafjarðar með góðum árangri. Gísli segir af og frá að þau ætli að halda að sér höndum nái eiginkonan sér að fullu.

„Það verða eflaust ný tækifæri og eða hugmyndir handa okkur í framtíðinni ef allt fer vel. Við ekkert á förum frá Vopnafirði og það alveg víst að einhver frekari ævintýri bíða framtíðarinnar.“

Árný Birna og Gísli á vinnustað sínum síðustu ellefu árin. Viss dapurleiki fylgi því að selja eignina en allt eigi sinn tíma. Mynd: Facebook/Hótel Tangi