Hádegisbænastundir í kirkjum Austfjarða gefa góða raun
Síðan snemma í júnímánuði hafa dyr hinna ýmsu kirkja í Austfjarðaprestakalli verið opnar öllum í sérstökum hádegisbænastundum þar sem fólk getur komið og notið hvað svo sem tilefnið er. Uppátækið hefur sannarlega gefist vel að sögn Benjamíns Hrafns Böðvarssonar sóknarprests.
Bænastundir í hádeginu á virkum dögum þrisvar í viku sem skiptast milli þeirra ellefu kirkja sem undir Austfjarðaprestakall heyra er nýjung sem Benjamín Hrafn datt í hug fyrir nokkru en hugmyndin að hans sögn að opna kirkjuna meira en almennt gerist að sumarlagi. Þar beðið fyrir ákveðnum bænaefnum sem fólki stendur nærri en jafnframt tækifæri fyrir presta að komast meira í kynni við íbúa á hinum ýmsu stöðum.
„Ég er nú bara akkurat að koma úr slíkri hádegisbænastund í Hofskirkjunni í Álftafirðinum og það annað skipti sem við höfum opið í hádegi þar í sumar. Það tókst sannarlega vel og mæting sæmileg þó segja megi almennt að það sé fámennt en góðmennt. En við sannarlega séð að margir hafa nýtt sér þetta tækifæri til að eyða stund í kirkjunni í sumar og þar kannski ekki síst ferðafólk sem stoppar og kíkir við þegar það tekur eftir að kirkjan er opin og bænastund í gangi. Sumir mæta til að hlusta, fá sálgæslu aðrir til að ræða við prestana meðan aðrir setjast bara niður og njóta friðarstundar.“
Tilraunaverkefni
Benjamín segir um tilraunaverkefni að ræða af hálfu prestakallsins í sumar en ekki loku fyrir skotið að haldið verði áfram með slíkt fyrirkomulag lengur.
„Ástæðan fyrir þessu tilraunaverkefni okkar er að það hefur mjög lítið verið að gerast hjá okkur að sumarlagi mörg undanfarin ár sem er að hluta skiljanlegt því fólk er almennt í fríum. En mig langaði engu að síður að hafa einhverja hreyfingu á stöðunum og kannski ekki síður þá staðreynd að að sumarlagi er gjarnan gott veður og færð til að láta sig hafa að keyra til kirkju ef svo ber undir. Það hefur sem sagt verið hádegisbænastund í einhverjum af kirkjum Austfjarða þrívegis í viku hverri á mánu-, miðviku- og föstudögum síðan snemma í júní og þessu verður framhaldið til 8. ágúst þegar við endum í Fáskrúðsfjarðarkirkju.“
Opið verður í bænastund í Heydalakirkju á föstudaginn kemur en slíkar stundir er liður í að opna kirkjur Austfjarða meira að sumarlagi en verið hefur. Mynd Þjóðkirkjan