Þögult inn við Kárahnjúka þessi jól

Ekkert jólahald verður við Kárahnjúka í ár, enda enginn mannskapur þar við störf um hátíðarnar, utan fjórir eftirlitsmenn. Jólalegt verður þó í Fljótsdalsstöð, þar sem vaktin er alltaf staðin hvað sem hátíðum líður.

Öll veitumannvirki Kárahnjúkavirkjunar eru nú komin í gagnið, eftir að vatn fór fyrr í vetur að safnast í Grjótár- og Kelduárlón Hraunaveitna.

week_51_2008_gildid_4.jpg Starfsmenn Ístaks hf. kepptust í ofanverðum desember við að flytja grjótmulning til á botni Hafrahvammagljúfurs eftir að sprengd var bergfylla gegnt enda yfirfalls Hálslóns neðan við Kárahnjúkastíflu. Var það lokaverkefnið á virkjunarsvæðinu í ár. Frá upphafi framkvæmda var vitað að djúp sprunga væri í bergi á austurbakka gljúfursins neðan stíflu, samsíða gljúfrinu. Stöðugt var fylgst með hreyfingum í berginu með mælitækjum og í ágúst 2008 víkkaði sprungan umtalsvert eftir að vatn fór að renna á ný á yfirfallinu. Snemma í október hrundi bergfyllan að hluta og þá lá fyrir að sprengja þyrfti afgang hennar til að tryggja öryggi þeirra sem ættu eftir að vinna í gljúfrinu sumarið 2009. Það sem eftir stóð af bergfyllunni var sprengt í vetur í tveimur áföngum, alls 20.000 rúmmetrar. Fyrri sprengingin var í byrjun nóvember en sú síðari um miðjan desember.  Byrjað var að flytja efnið upp úr gljúfrinu 11. nóvember og á vöktum frá 25. nóvember. Afköstin eru 5.000-7.000 rúmmetrar á sólarhring. Um miðjan desember höfðu um 75.000 rúmmetrar verið fjarlægðir og fluttir til um 400 metra, niður fyrir stæði stíflunnar sem reist verður í gljúfrinu. Sumarið 2009  verður steypt í botn gljúfursins, undir yfirfallsrennunni, og sett upp grjóthleðsla eða stífla skammt þar fyrir neðan til að vatn safnist í einskonar þró og dragi úr afli í Kárahnjúkafossi sem til verður að jafnaði síðsumars þegar Hálslón er fullt. Grjótár- og Kelduárlón Hraunaveitna eru að myndast hægt og sígandi. Hið síðarnefnda verður um 7,5 ferkílómetrar þegar það er fullt og miðlunarrýmið um 60 gígalítrar. Sambærilegar tölur fyrir Hálslón eru 57 ferkílómetrar og 2.100 gígalítrar. Þá eru öll veitumannvirki Jökulsár- og Hraunaveitu komin í gagnið og um leið öll veitumannvirki Kárahnjúkavirkjunar, þar sem fyrst skal nefna til sögu sex stíflur og 54 kílómetrar af sprengdum og heilboruðum aðrennslisgöngum. Til viðbótar koma aðgöng og vinnugöng eða alls um 72 kílómetrar sem voru grafnir og boraðir vegna virkjunarinnar. Ístak hf. hefur lokið vinnu við Hraunaveitur og er farið með mannskap sinn af vettvangi. Fjórir starfsmenn á vegum Landsvirkjunar eru þar áfram við gæslustörf og sinna jafnframt skilum á verkbúi. Grjótárbotnrás var lokað 8. desember og þá er miðað við að Grjótárstífla og Kelduárstífla hafa verið teknar í notkun.  Öll aðrennslisgöng og tvenn veitugöng á Hraunaveitusvæði (Kelduárgöng og Grjótárgöng) eru komin í fulla notkun ásamt tilheyrandi lokubúnaði. Áður höfðu Jökulsárgöng verið tekin í notkun, 16. október. Ufsarlón hefur staðið fullt frá því 16. september. Það fór að myndast eftir að lokum var rennt fyrir botnrás Ufsarstíflu 11. september við athöfn á vettvangi. Ekki náðist að ljúka öllum verkum á svæði Jökulsár- og Hraunaveitu áður en vetrargaddurinn tók völd á hálendinu og verður þráður tekinn upp að nýju með vorinu til frágangsvinnu og tiltektar. Meðal annars stendur út af að setja síðustu rúmmetra fyllingarefnis í Kelduárstíflu og ljúka við ölduvörn þar, ganga frá stífluendum og stíflutoppi.  Dæmi um önnur verkefni næsta sumars eru  frágangur við rafmagnsbúnað við inntak Jökulsárganga og Ufsarstíflu, smávægileg steypuvnna í yfirfalli Grjótárstíflu, uppsetning handriða og öryggiskeðja við inntak Kelduárganga, bílastæði við inntak Jökulsárganga og fleira. Frá þessu greinir á vefnum karahnjukar.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.