Skip to main content

Gripu til sinna eigin ráða í gömlu kirkjunni á Djúpavogi

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. apr 2025 16:22Uppfært 10. apr 2025 16:25

Hópur fólks á Djúpavogi hefur undanfarna mánuði unnið að því að koma gömlu kirkjunni á Djúpavogi í það ástand að hægt verði að nota hana. Lokahnykkurinn er nú framundan.


Kirkjan er sögufræg, byggð árið 1893 en afhelguð árið 1996 eftir að ný kirkja var vígð á Djúpavogi. Ytra byrði kirkjunnar var endurbyggt en lítið varð úr hugmyndum um ný hlutverk fyrir hana. Fyrstu auglýsingar sveitarfélagsins Múlaþings báru ekki árangur og var því farið að ræða hvort rétt væri að selja húsið.

Það kveikti í Hollvinasamtökum kirkjunnar sem upphaflega voru stofnuð árið 2011. Fyrst var boðað til opins fundar þar sem rætt var hvað hægt væri að gera við kirkjuna, en síðan aðalfundar þar sem ný stjórn var kosin.

„Hugmyndirnar sem komu fram á opna íbúafundinum sameinuðust flestar í því að húsið yrði nýtt sem samkomuhús fyrir menningartengda viðburði og við í stjórninni vonumst til þess að geta fengið inn einhverjar tekjur fyrir reksturinn og endurbæturnar, með allskyns viðburðum, sem bæði við í stjórn sem og almennir íbúar standa fyrir.

Við horfum þó kannski sérstaklega til sumarsins þar sem okkur gæfist tækifæri til að opna handverksmarkað eða annars konar sölu- og samkomurými á stórum dögum þegar m.a. skemmtiferðaskip eru í firðinum með öllum sínum farþegum. Eftir samtalið við íbúa held ég að við eigum ekki eftir að eiga í vandræðum með að fylla gömlu kirkjuna af lífi,“ segir Íris Birgisdóttir, formaður samtakanna.

En þótt ytra byrðið væri að mestu tilbúið var mikið verk inni. Um 30 manna hópur hittist fyrst um miðjan janúar til að byrja að einangra kirkjuna. Að því hefur verið unnið undanfarna mánuði og um helgina er framundan lokahnykkurinn. Hópurinn hefur jafnan hist í kaffi eftir vinnudaga sína en nú verður gengið lengra með grillveislu.

Þar með á markmiðinu að vera náð, en frá upphafi hefur verið stefnt á að opna kirkjuna fyrir Hammond-hátíðina sem hefst á sumardaginn fyrsta, sem er eftir tvær vikur.

Byggt á grein sem áður birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.