Green rekinn

Höttur hefur rift samningi við ný-sjálenska körfuknattleiksþjálfarann Jeff Green. Stefán Bogi Sveinsson, formaður körfuknattleiksdeildarinnar, segir ástæðuna vera tvíþætta, gengishrun og að Green hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar.

 

Image„Í fyrsta lagi hefur gengisþróun verið með þeim hætti að samningar við erlenda leikmenn og þjálfara hafa orðið dýrari en gert var ráð fyrir í áætlun og ljóst að einhvers staðar yrði að skera niður. Hins vegar var óánægja hjá stjórninni með Green því hann var ekki kominn til landsins og ekki stýrt liðinu á undirbúningstímabilinu. Þegar þetta tvennt var lagt saman var niðurstaðan þessi.“
Ekki er ljóst hver tekur við þjálfun liðsins en Stefán segir að vinna verði hratt í því þar sem fyrsti leikur liðsins er gegn Haukum á Egilsstöðum á laugardag.

Hannibal Guðmundsson hefur stýrt liðinu á undirbúningstímabilinu. „Hann var reynslumestur leikmanna og því augljós kostur til að stýra æfingum á meðan beðið væri eftir þjálfaranum. Hann hefur unnið náið með stjórninni en það hefur ekki komið sérstaklega til tals að hann taki við þjálfun liðsins,“ sagði Stefán Bogi í samtali við Austurgluggann í kvöld.

Félagið hefur á móti ákveðið að fá Bandaríkjamanninn Jerry Cheeves. Hann er lítill framherji og mikill skotmaður sem spilaði í vor með Belfast Star í írsku deildinni. „Í öllum okkar áætlunum var gert ráð fyrir þremur útlendingum. Af því verður ekki en með að segja upp samningi við Green spörum við okkur um milljón og aðra með að taka tvo en ekki þrjá erlenda leikmenn.“Ný-Sjálendingurinn Ben Hill verður áfram hjá félaginu.

Björgvin Karl Gunnarsson, fyrrverandi fyrirliði Hattar, lýsti í sumar óánægju sinni með Green og neitaði að spila undir hans stjórn. Stefán Bogi segir ekki hafa verið rætt við þá leikmenn sem voru óánægðir með Green.
„Það var þeirra ákvörðun að spila ekki. Kannski breytir þetta þeirra afstöðu en það er ekki spurning um að okkur þætti gott að sjá þá aftur. Við höfum alltaf þörf fyrir góða körfuboltamenn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.