Gnótt viðburða á barna- og unglingamenningarhátíðinni BRAS
Enn eitt haustið er austfirska barna- og menningarhátíðin BRAS að hefjast en á meðan hún varir stendur gnótt menningar- og listaviðburða öllum grunnskólanemum til boða.
Langflestir eru sammála um að þau átta ár sem BRAS hefur farið fram hafi það sannarlega aukið list- og menningaráhuga barna og unglinga og hátíðin skipað sér sess sem einn af stærstu menningarviðburðum Austurlands. Að henni standa, auka Austurbrúar, öll sveitarfélög fjórðungsins, allar menningarmiðstöðvar og samtökin List fyrir alla.
Dagskrá út októbermánuð
Dagskráin þetta haustið ekki síðri en undanfarin ár að sögn Halldóru Drafnar Hafþórsdóttur, verkefnisstjóra hátíðarinnar.
„Það er af mörgu að taka en sem dæmi þá ætlar Skaftfell á Seyðisfirði að bjóða á sýninguna um Kjarval og í kjölfarið verður smiðja þar sem unnið verður út frá myndunum hans Kjarvals. Mennningarstofan í Fjarðabyggð ætlar að bjóða upp á fjórar smiðjur sem tengjast þeirri ósk margra barna og unglinga að koma á fót svona Skrekk eða Skjálfta Austurlands en það eru hæfileikakeppnir fyrir þennan aldurshóp sem haldnar hafa verið með góðum árangri annars staðar í landinu. Þessar hugmyndasmiðjur ganga út á að undirbúa krakkana fyrir slíkt og leggja grunn að því að slík keppni geti orðið að raunveruleika hér austanlands á næsta ári.“
Af öðru forvitnilegu má nefna danssýningu og kennslu hópsins Dans Afríka þar sem tónlist, litir og gleði ráða ríkjum. Minjasafn Austurlands heldur smiðjur um landnámsfólkið, í FabLab Austurland læra nemendurnir að prenta og færa teiknaða mynd yfir á bol. UngRiff heldur tvær kvikmyndasmiðjur. Þá mun listafólkið Saga Unnsteins, Ævar Þór Benediktsson og Embla Bachmann halda sínar eigin smiðjur. Er þá fátt eitt nefnt til sögunnar sem boðið er upp á á BRASinu næstu vikurnar en fyrstu viðburðir hefjast næstu helgina. Alla viðburði má sjá á Facebook-vef BRAS.
Tónlistarviðburðir, listasmiðjur af ýmsum toga auk fjöldi námskeiða er meðal þess sem börn og unglingar í grunnskólum Austurlands geta notið næstu vikurnar. Mynd Facebook/BRAS