Orkumálinn 2024

Glæsilegir einsöngstónleikar

Á  sunnudag, 1. mars, verða einsöngstónleikar í Kirkju- og menningarmiðstöð Fjarðabyggðar á Eskifirði í samstarfi við Félag íslenskra tónlistarkennara og Félag íslenskra hljómlistamanna.

Tónleikarnir byrja kl. 17 og standa í klukkutíma.

atli_heimir.jpg

Einsöngstónleikar í Kirkju- og menningarmiðstöðinni Fjarðabyggð 1. mars kl. 17.00:

Hallveig Rúnarsóttir sópran og Árni Heimir Ingólfsson píanó

Atli Heimir Sveinsson: Lög úr Sjálfstæðu fólki

Páll Ísólfsson:  Söngvar úr Ljóðaljóðum

Hjálmar H. Ragnarsson: Lög úr Pétri Gaut

Tryggvi M. Baldvinsson:  Lög úr Heimskringlu

Aðgangseyrir kr.1.500

 

Ókeypis fyrir börn og unglinga

Hallveig Rúnarsdóttir og Árni Heimir Ingólfsson flytja lög úr Sjálfstæðu fólki eftir Atla Heimi Sveinsson, Söngvar úr Ljóðaljóðum eftir Pál Ísólfsson, lög úr Pétri Gaut eftir Hjálmar H. Ragnarsson og lög úr Heimskringlu eftir Tryggva M. Baldvinsson.

Tónleikarnir eru uppbyggðir á nýlegri íslenskri söngtónlist. Hér á landi er til mikill fjársjóður af söngtónlist sem hefur verið samin á síðustu áratugum sem mætti flytja meira og víðar en gert er. Efnisskráin er létt og skemmtileg, stór hluti hennar, lög Atla og Hjálmars, er samin fyrir leikhús, og allir þekkja Heimskringluljóðin hans Þórarins Eldjárns og hefur Tryggvi samið frábær lög sem passa ljóðunum fullkomlega. Á efnisskránni er svo meistarastykki Páls Ísólfssonar, Söngvar úr Ljóðaljóðum, stórfengleg tónsmíð sem aldrei er of oft flutt.

  

Efnisskrá:

Atli Heimir Sveinsson:                                   Lög úr Sjálfstæðu fólki

                                                                       

                                                            Dans   

                                                            Maríukvæði

                                                            Frændi þegar fiðlan þegir

                                                            Barnagæla       

                                                            Klementínudans

Páll Ísólfsson:                                                 Söngvar úr Ljóðaljóðum

                                                            Heyr, það er unnusti minn

                                                            Ég er Narsissa

                                                            Ég kom í garð minn

                                                            Svört er eg

                                                            Í hvílu minni um nótt

                                                            Hvað er það, sem kemur úr heiðinni

Hlé

Hjálmar H. Ragnarsson:                               Lög úr Pétri Gaut

                                                           

                                                            Söngur Sólveigar         

                                                            Hátíðarsöngur

                                                            Vögguvísa Sólveigar

Tryggvi M. Baldvinsson:                               Lög úr Heimskringlu

                                                            Heimskringla

                                                            Véní Séní

                                                            Fingurbjörg

                                                            Hvar ertu?

                                                            Vont og gott

Um verkin:

Atli Heimir Sveinsson samdi lögin sem hér eru flutt fyrir sýningu Þjóðleikhússins 1999 á Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness í leikgerð Sveins Einarssonar. Nokkur laganna hafa náð töluverðri útbreiðslu, þó helst Maríukvæði og svo Klementínudans sem flestir landsmenn þekkja eftir að það var notað í áhrifamikilli auglýsingu frá Umferðarstofu fyrir nokkrum árum. Lögin eru grípandi og falleg í senn enda Atli einn besti laglínusmiður þjóðarinnar og henta þau vel ljóðum nóbelskáldsins.

Páll Ísólfsson samdi hina margbrotnu Söngva úr Ljóðaljóðum Gamla testamentisins um miðja síðustu öld og teljast þau með helstu verkum tónskáldsins. Ljóðaflokkurinn gerir mjög miklar kröfur til flytjenda og oft fluttur í styttri útgáfu af þeirri ástæðu. Fyrsta tónskáld tónleikanna, Atli Heimir Sveinson umskrifaði flokkinn síðar fyrir sinfóníuhljómsveit. Tónlistin einkennist af dramatík og ástríðu sem spilar glæsilega saman við ljóðrænu textans.

Árið 1992 fékk Þjóðleikhúsið Hjálmar H. Ragnarsson til fara í spor ekki ómerkari tónskálds en Edvards Grieg og semja lög við ljóð Sólveigar, heitkonu Péturs Gauts úr samnefndu leikriti Henriks Ibsen. Lögin eru eins og gefur að skilja mjög ólík tónsmíðum Griegs en þó er í þeim að mörgu leyti svipuð stemmning, dásamleg kyrrð en á sama tíma flæði. Hjálmar er mikilvirkt leikhústónskáld sem heyrist vel í þessu verki, lögin eru einföld í sniði og ekki sérstaklega erfið í flutningi sem hentar vel í leikhúsi en eru á sama tíma einstaklega áhrifarík.

Heimskringla var fyrsta barnaljóðabók Þórarins Eldjárns en þær eru nú orðnar fleiri og hver annarri skemmtilegri eins og alþjóð veit. Húmor er líka eitt af höfuðeinkennum síðasta tónskálds dagsins, Tryggva M. Baldvinssonar og því ekki skrýtið að hann hafi kitlað í skáldafingurna þegar hann rakst á texta Þórarins. Útkoman er óborganlegur ljóðaflokkur þar sem fara saman stórfyndnir textar og einstaklega hnyttin og fjörug tónlist.

Um tónskáldin


Atli Heimir Sveinsson (1938-) nam píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík hjáRögnvaldi Sigurjónssyni. Á árunum 1959-62 dvaldist hann í Köln og lagði stund á tónsmíðar hjá þeim Günther Raphael og Bernd Alois Zimmermann. Hann sótti einnig tíma til Karlheinz Stockhausen og Henri Pousseur ásamt raftónsmíðum hjá Gottfried Michael Koenig í Bilthoven. Þegar hann hafði snúið aftur heim tók hann til óspilltra málanna víða í íslensku tónlistarlífi: sem kennari, m.a. við Tónlistarskólann í Reykjavík, sem útvarpsmaður, stjórnandi, skipuleggjari og tónskáld fyrir tónleikasali, leikhús, kirkjur og áhugastarfsemi. Hann hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum og var m.a. formaður Tónskáldafélags Íslands 1972-1983.Atli Heimir Sveinsson hefur samið tónlist af fjölbreyttu tagi. Að grunni til má lýsa stíl hans sem rómantísk/expressionistískum, en þýðinagarmikill þáttur eru schumanneskar eða strindbergskar mótsagnir í fari hans: þær lýsa sér í metnaði gagnvart umheiminum, með stílbrigðum af öllu tagi, djúpri tilfinningu fyrir íslenskum hefðum, árekstrum furða og rómantíkur, framsækni og hefða, umskiptum frá ögrun til ljóðrænt trúarlegrar hugleiðslu.Meðal eftirtektarverðari verka má nefna hina sjö einleikskonserta hans, svo sem lágfiðlukonsertinn Könnun (1971), hljómsveitarverkið Hjakk (1979), óperuna Silkitrommuna (1982), sérkennilega Gloríu fyrir píanó (1981), áhrifamiklu og gegnsæju kórsvítuna Haustmyndir (1982). Slagaraættaða tónlistin í stórlukku söngleiknum Land míns föður (1985) lýsir umfeðmi hans og hæfni. Á Listahátíð í Reykjavík 1994 var frumflutt stórverkið Tíminn og vatnið og á Myrkum músíkdögum 1995 var frumfluttur konsert hans Lieder ohne Worte fyrir saxófónkvartett og hljómsveit.Árið 1976 hlaut Atli Heimir Sveinsson Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir flautukonsert sinn. Hann er meðlimur í Konunglegu sænsku tónlistarkademíunni. Verk hans hafa verið flutt víða um heim.

Páll Ísólfsson (1893-1974) lærði á orgel hjá Karl Straube í Leipzig (1913-18). Hannvar aðstoðarorganisti við St. Tómasarkikjuna í Leipzig frá 1917 til 1919. Hann fór til Parísar til frekara náms 1925 og nam þá hjá Joseph Bonnet.Að námi loknu tók Páll til starfa á Íslandi þar sem tónlistarlíf var í mikilli þróun. Páll var skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík frá stofnun árið 1930 til 1957, tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins (1930-1959), organisti Dómkirkjunnar í Reykjavík (1939-1968), auk annarra starfa. Hann fór nokkrar tónleikaferðir til útlanda og eins komu út hljóðritanir með leik hans. Einn gagnrýnandi sagði hann einn fimm bestu organista aldarinnar. Hann hlaut heiðursdoktorsnafnbót frá Oslóarháskóla árið 1945 og 1956 var hann gerður félagi í Konunglegu sænsku tónlistarakademíunni.Páll sagðist ekki líta á sjálfan sig sem tónskáld, hann hefði einungis samið vegna þess að þess var þörf. Mest var þörfin fyrir orgeltónlist og samdi hann nokkrar prelúdíur og sálmaforleiki, Introduktion og passacaglia og Chaconnu. Síðustu tvö verkin eru einnig til í útgáfu fyrir sinfóníuhljómsveit. Af öðrum hljómsveitarverkum má nefna Lýrísk svíta og tónlist fyrir leikhús s.s. tónlist við Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson.Páll Ísólfsson samdi mörg lög fyrir rödd og píanó og kórlög fyrir bæði blandaða og karlakóra. Einnig samdi hann Háskólakantötu, Skálholtskantötu (f. einsöng, kór og hljómsveit) sem samin var í tilefni 900 ára afmælis Skálholtsbiskupsdæmis (1956) og Alþingishátíðarkantötu, sem samin var í tilefni 1000 ára afmælis Alþingis (1930). Sú síðastnefnda var flutt á Þingvöllum 1930 undir stjórn tónskáldsins.

Hjálmar H. Ragnarsson (1952-) starfar sem tónskáld í Reykjavík auk þess að vera rektor Listaháskóla Íslands. Hann starfar fyrir leikhús og semur tónlist fyrir bíó og sjónvarp auk þess sem fjölmargir leita til hans með óskir um ný verk, bæði einstaklingar og hópar. Hjálmar stundaði píanónám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhaldsnám í tónlist við Brandeis háskólann í Boston (B.A. pr óf 1974). Hann lauk meistaraprófi í tónsmíðum og tónfræðum frá Cornell háskólanum í Íþöku í New York árið 1980. Þá stundaði hann nám í raf- og tölvutónlist í Hollandi 1976-77.Að loknu námi starfaði hann sem kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann hefur starfað sem kórstjóri, og í nokkur ár stjórnaði hann Háskólakórnum og vann einnig mikið með sönghópnum Hljómeyki. Þá hefur hann starfað fyrir útvarp og skrifað fjölmargar greinar um tónlist og tónlistarmál fyrir bæði innlend og erlend blöð og tímarit.  Hjálmar hefur lengi verið í forystu í félagsmálum listamanna á Íslandi. Hann var m.a. formaður Tónskáldafélags Íslands 1988-1992 og hefur verið f orseti Bandalags íslenskra listamanna frá 1991. Hjálmar hefur sérstaklega kynnt sér tónlist Jóns Leifs og hefur fjallað um ævi og lífsstarf Jóns á ýmsum vettvangi.


 

Tryggvi M. Baldvinsson (1965-) stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Jónasi Ingimundarsyni í píanóleik og við Tónfræðadeild sama skóla þar sem tónsmíðakennarar hans voru þeir Atli Heimir Sveinsson og Þorsteinn Hauksson. Hélt að því námi loknu, (1987), til Vínarborgar þar sem hann nam tónsmíðar og tónfræði með sérstakri áherslu á endurreisnarkontrapunkt hjá Reinhold Portisch við Konservatoríum Vínarborgar og lauk þaðan prófi árið 1992. Tryggvi hefur að námi loknu starfað við hina ýmsu tónlistarskóla. Nú síðast sem deildarstjóri tónfræðagreina við Tónlistarskólann í Reykjavík og kennari tónfræðagreina við tónlistardeild LHÍ. Hann stjórnaði einnig Lúðrasveit verkalýðsins á árunum 1996 – 2005. Tryggvi hefur einnig sinnt ýmsum félagsmálum í þágu tónskálda; var m.a. formaður Ung Nordisk Musik á Íslandi, sat í stjórn Tónskáldafélags Íslands og Íslenskrar Tónverkamiðstöðvar.
Verk Tryggva hafa verið flutt víða um heim og hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín. Árið 2004 hlaut verk hans, Konsert fyrir klarinettu og blásarasveit, Íslensku Tónlistarverðlaunin sem sígilt tónverk ársins 2003.)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.