„Gestir eru gjafir frá Guði“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. mar 2025 18:33 • Uppfært 03. mar 2025 18:36
Rafał Koczanowicz á Fáskrúðsfirði hefur tekið sér ýmislegt fyrir hendur um ævina, þótt eftir að hann flutti hingað til lands hafi hann einkum unnið við ferðaþjónustu en hann var meðal annars verkefnastjóri safna Fjarðabyggðar í fyrra. Hann á sér merkilega forsögu því hann ætlaði í íranskan háskóla þegar þegar hagir hans breyttust og hann flutti til Íslands.
Rafal er málamaður, auk móðurmálsins pólsku talar hann reiprennandi ensku, þýsku og rússnesku. Hann hefur ferðast um Kákasussvæðið, kann eitthvað í armensku og georgísku og í vor stefnir hann á útskrift frá Háskóla Íslands með starfsdiplóma í íslensku og BA-gráðu í enskum málvísindum.
Getu sína til að halda uppi samræðum á íslensku þakkar hann Fjólu Þorsteinsdóttur sem hann hefur unnið með á Franska safninu á Fáskrúðsfirði. „Ég var svo heppinn að fá tækifæri til að eiga samskipti við hana í vinnunni. Fjóla þekkir mig, og ég þekki Fjólu,“ segir hann glaður.
Keypti bækur fyrir vasapeningana
Rafał fæddist í suðausturhluta Póllands, nálægt borginni Tarnów, og ólst upp sem einkabarn. Strax sem drengur heillaðist hann af bókum og námi og leitaði stöðugt nýrrar þekkingar. Eins og önnur forvitin börn fann hann hana oft í gömlum bókum frá Sovétríkjunum, sem leyndust uppi á háalofti hjá afa og ömmu.
„Ég ólst ekki upp við ríkidæmi, en foreldrar mínir höfðu þann sið gefa mér vasapening af og til. Þegar þeir gerðu það, eyddi ég þeim aldrei í sælgæti. Ég hugsaði alltaf um hvort einhver bóksali væri með þessa fallegu útgáfu af Ilíonskviðu eftir Hómer, svo ég myndi kaupa hana í staðinn.“
Ótrúlegar breytingar í heimalandinu
Þótt heimabær hans væri nær Kraká, fór Rafał 19 ára gamall til Wrocław til að læra listasögu. Ólíkt Kraká, sem var íhaldssamari í eðli sínu, bauð Wrocław upp á fjölbreytileikann og umburðarlyndið sem Rafał þráði sem ungur maður úr litlu þorpi. Innganga Póllands í Evrópusambandið árið 2004 var vendipunktur í hans huga, hann leit á það sem tækifæri fyrir hans kynslóð. Pólland, sem áður hafði verið einangrað og „grátt“, varð allt í einu sannur hluti af Evrópu, sem gaf frelsi til að ferðast hvert sem er og elta langanir sínar.
„Breytingarnar sem áttu sér stað á meðan ég ólst upp voru gríðarlegar. Stökkið var langt umfram það sem ég gat ímyndað mér. Stundum á ég erfitt með að trúa því að lífið sem ég átti sem barn sé hluti af sömu tímalínu og líf mitt í dag.“
Einstök gestrisni í Kákasus
Eftir útskrift dvaldi Rafał eitt ár í Nürnberg í Þýskalandi, þar sem hann sökkti sér í strangt þýskunám á meðan hann vann á veitingastað til að framfleyta sér. Þegar hann snéri aftur til Póllands fékk hann vinnu í símaveri, þar sem hann eyddi átta klukkustundum á dag í að svara fyrirspurnum viðskiptavina á þýsku. Það styrkti enn frekar tök hans á tungumálinu.
Hann langaði þó að breyta til og fór að vinna fyrir sjálfboðaliðasamtök sem varð til þess að hann fór að starfa í Jerevan, höfuðborg Armeníu. Samtökin stóðu fyrir óformlegu tungumálanámi fyrir nemendur og Rafał kenndi þýsku, ensku og pólsku.
Hann nátti nokkurn frítíma sem hann notaði til að heimsækja nágrannaríki á borð við Georgíu, héröðin Nagorno-Karabakh og Abkasíu, og meira að segja Íran, oft á puttanum.
„Allt svæðið, þessi stóra veröld Kákasus og suður til Persíu, er svo einstakt. Ég veit ekki hvaðan það kemur, en gestrisni þessa fólks er svo rótgróin og djúp. Þau geta ekki hrist hana af sér. Það er eins og innri stjórnarskrá lífsins - að þú verðir að vera góður við gestina þína. Í raun held ég að það sé málsháttur í einu tungumálanna þarna: „Gestir eru gjafir frá Guði.“ Þú rekur þá ekki í burtu. Það er vinsemd og einfaldleiki, sem því miður oft sprettur af fátækt. Þegar ég var þarna var efnahagsástandið hörmulegt.“ útskýrir Rafał.
Starfsmaður á hóteli í einskismannslandi
Eftir Armeníu og Georgíu hélt ferðalag Rafałs áfram til Írans. Hann heillaðist af landinu, lengdi dvölina og fór að kenna erlend tungumál auk þess að læra persnesku. Í gegnum vin hans, sem nú vinnur á Stöðvarfirði, fékk hann ábendingu um að starfsfólk vantaði í ferðaþjónustu á ÍSland og það varð til þess að Rafał dúkkaði í janúar 2017 upp á Fosshóteli við Jökulsárlón.
„Þetta var algjörlega nýtt umhverfi. Ég hafði aldrei upplifað þessa stemmingu áður, sem oft einkennir ferðaþjónustu í íslensku dreifbýli, innflytjendur í vinnubúðum, sérstaklega ekki þegar hótelin eru í miðju einskismannslandi.“
Hann fór stuttlega aftur heim til Póllands, fór svo í ferðalag til Kanada og ætlaði síðan í háskóla í Íran til að læra persnesku. En vestan hafs kynntist Rafał manni sínum Marc Fulchini og þeir fluttu til Íslands.
Rafał kann vel við sig á Íslandi, segir tímann það besta við landið, hann hafi aldrei haft eins mikið af tíma fyrir sig og áhugamál sín. Hann er göngugarpur, segist hafa alist upp við það í sveitinni hjá afa sínum. Uppáhaldsleiðin hans er Víknaslóðir sem hann hefur gengið fjögur sumur í röð. Hann kallar göngurnar „andlegt hreinlæti“ og reynir að setja þær í forgang í sínu daglega lífi.
Austurland býr yfir mikilli sögu
Hann var verkefnastjóri safna í Fjarðabyggð í fyrra, bar ábyrgð á Franska safninu, Stríðsminjasafninu á Reyðarfirði, Safnahúsinu í Neskaupstað og Sjóminjasafninu á Eskifirði.
„Söfnin þjóna því hlutverki að varðveita menningu og sögu þessara litlu samfélaga á Austurlandi. Það eru í rauninni íbúar þessara samfélaga sem koma til að sjá og upplifa sögu sína og mögulega miðla henni til næstu kynslóða.“
Vegna tengingarinnar við Frakkland sér Rafał mikla möguleika í samstarfi Fjarðabyggðar og Gravelines í Frakklandi. „Franskir ferðamenn vilja sjá hluta af arfleifð sinni, og þetta safn segir frá veru franskra sjómanna við strendur Íslands á um 150 ára tímabili. Veiðarnar voru mikið menningar- og sjávarútvegsfyrirbrigði og þeim fylgdi mikil alþjóðleg nærvera.“
Hann telur að með réttri markaðssetningu sé hægt að styrkja söfnin enn frekar. „Austfirðirnir og Austurland almennt hafa verið ranglega talin vera áfangastaður sem keyrt er í gegn um, að ekki sé þess virði að dvelja lengur en eina nótt. Ég held að hluti af vandanum sé að fólk haldi að hér sé engin menning, saga eða afþreying. En hér er margt.
Við verðum að tala við ferðamannaiðnaðinn, tryggja að ferðaskrifstofur sem selja pakkaferðir um landið viti af okkur, því oft gera þær það ekki. Annað sem er mikilvægt er að Franska safnið ætti ekki bara að vekja áhuga Frakka; það er heillandi í sjálfu sér og ætti að höfða til allra.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.