Gerðu sínar eigin Krakkafréttir
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. jún 2025 17:13 • Uppfært 30. jún 2025 17:17
Í Djúpavogsskóla var í vetur unnið með valdeflingu nemenda og sjálfstraust með að gefa þeim færi á að tjá sig opinberlega á vef skólans um sín hjartans mál með sínum eigin Krakkafréttum.
RÚV hefur undanfarin ár haldið út Krakkafréttum, sérstökum dagskrárlið þar sem sagðar eru þær fréttir sem börn kunna að hafa áhuga á, eða fullorðinsfréttir skýrðar fyrir börn. En á Djúpavogi eru nemendurnir sjálfir fréttamennirnir.
„Það er gaman að í Djúpavogsskóla hefur verið tekin upp þessi leið, sem er til þess fallin að virkja nemendur í eigin skólastarfi, láta þá segja sjálfa frá skólastarfinu og skólasamfélaginu og þá um leið valdeflir nemendur. Þetta er dæmi um skólaverkefni sem eflir sjálfstraust nemenda og þátttöku, og hefur þá jafnvel eflandi áhrif á vellíðan nemenda,“ segir Þórdís Sævarsdóttir, skólastjóri.
Þórdís segir lítinn vafa leika á að aukin þátttaka barna í eigin starfi skipti nokkrum sköpum. „Aukin þátttaka barna í eigin starfi hefur átt auknu fylgi að fagna með aukinni áherslu á barnamenningu undanfarin ár, m.a. má þar nefna „Krakkaskaupið“, sem hefur orðið ekki síður vinsælt en Áramótaskaupið sjálft.
Virk þátttaka nemenda í eigin skólastarfi er eitt af þeim mikilvægu atriðum sem við skólafólk, á Íslandi og reyndar um allan heim, höfum fjallað um og þróað hægt og rólega í tugi ára og með hverju árinu sjáum við einhvern góðan árangur í þá átt í svo mörgum þáttum.“
Mikilvægi sköpunar og frumkvæðis
Sjálf var Þórdís í undirbúningshóp umfangsmikillar rannsóknar á listfræðslu á Íslandi á sínum tíma en að þeirri rannsókn kom meðal annars reynslumikill erlendur sérfræðingur. „Þetta var ein viðamesta rannsókn á íslensku skólakerfi, sem unnin hefur verið af erlendum sérfræðingi, sem ég man eftir. Í þessu ferli komu einnig fram fleiri dýrmæt atriði fyrir skólastarf, eins og mikilvægi sköpunar og frumkvæðis nemenda.“
Annað sem skýrt kom fram við rannsóknina var að efla ætti alla tjáningu íslenskra nemenda; deila hugmyndum, útskýra verkefni sín og rökstyðja. „Þegar ég hef verið í erlendum skólaheimsóknum þá hefur þetta verið eitt af þeim atriðum sem ég hef tekið eftir, hvernig nemendur í öðrum löndum virðast oft hafa betri þjálfun og vera ófeimin við að sýna, útskýra og eiga dýpra samtal um verkefni sín og fylgja þeim eftir með vangaveltum og svörum um hvaðan þau fengu innblástur, af hverju þau unnu verkefnin, listaverkin eða annað á þann tiltekna hátt. Þessi hæfni er frábær og eflir bæði samskipti og vellíðan allra.“
Ewalina, Daniela og Natalía halda vel utan um allt sem til fellur í frístundatíma. Mynd: Djúpavogsskóli
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.