Skip to main content

Gæfugripur til verndar á lífshafinu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. ágú 2025 17:18Uppfært 25. ágú 2025 17:21

Hönnuðurinn Rósa Valtingojer er hvatamaðurinn að því að Stöðfirðingar hjálpast að við að framleiða minjagrip sem innblásinn er af fornleifauppgreftrinum að Stöð. Markmiðið er að selja gripinn og afla fjár til að halda rannsóknum þar gangandi.


Frá árinu 2015 hefur fornleifafræðingurinn Bjarni F. Einarsson leitt fornleifauppgröft í landi Stöðvar, innst í Stöðvarfirði, þar sem byggingar frá því um landnám hafa komið í ljós.

„Fyrir um tveimur árum grófu þau upp lítið steinbrot með útskornu víkingaskipi. Það eru margar kenningar um tilgang þess, ein er sú að það hafi verið eins konar verndargripur fyrir sjófarendur til að vernda þá fyrir hættum. Þegar mér datt í hug að búa til minjagrip byggðan á þessum litla útskurði og gera eftirmynd varð úr því hálsfesti, gæfugripur ætlaður til að vernda fólk á „lífshafinu“,“ segir Rósa.

Bæjarbúar hjálpast að við framleiðsluna


Hugmynd Rósu er að útbúa hvern grip og bjóða síðan Stöðfirðingum að koma saman og ljúka þeim, þræða leðurólarnar og pakka þeim inn. „Þetta verður samfélagsleg framleiðsla með göfugu markmiði.

„Vonandi náum við að búa til þúsundir þeirra. Við vonumst til að safna fé til að styðja rannsóknirnar því þrátt fyrir hversu áhugavert svæðið er, er enn mjög erfitt að fá nægilegt fjármagn til uppgraftarins,“ segir Rósa.

Fornleifauppgröfturinn sameinar Stöðfirðinga


Þótt talið sé að staðurinn sé nokkrum áratugum eða jafnvel heilli öld eldri en opinbert landnám Íslands, hefur fjármögnun verið af skornum skammti. Heimafólkið er þó staðráðið í að halda verkefninu gangandi og styðja áframhaldandi rannsóknir. Hingað til, eins og Rósa orðar það, hefur mest allt verið unnið í sjálfboðavinnu.

„Samvinna er einhvers konar vörumerki okkar hér í Stöðvarfirði. Þetta er mjög samhent samfélag í þeim skilningi, fólk sameinast um að láta hlutina gerast. Eins og á þessum eina mánuði á ári þegar fornleifafræðingarnir eru hér: þá eldar hópur kvenna úr bænum fyrir þau á hverjum degi og aðrir baka alls kyns kræsingar til að færa þeim út á svæðið þar sem þau vinna. Þetta er bara eitt dæmi um það hvernig hlutirnir eru gerðir hér. Það eru svo margar sögur um fólk sem sameinast fyrir almannaheill í þessu samfélagi.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.