Frítt á alla viðburði á Austurland Freeride Festival sem hefst á morgun
Hin árlega fjallaskíða- og brettahátið Austurland Freeride Festival hefur sannarlega fest sig í sessi sem spennandi viðburður að vetrarlagi í fjöllum Fjarðabyggðar en aldrei áður hefur þó verið algjörlega frítt í allar ferðir hátíðarinnar eins og nú verður raunin.
Hátíðin hefst á morgun og fyrir utan þá staðreynd að skíðaáhugafólk getur tekið þátt sér að kostnaðarlausu fyrsta sinni er veðurspáin næstu dægrin aldeilis góð. Dagskrá hátíðarinnar má í heild sinni finna hér.
Sævar Guðjónsson, skipuleggjandi, segir um 50 manns hafa boðað komu sína sérstaklega í ferðir þær sem farið verður í næstu daga en í ofanálag verði sértilboð í brekkur Oddsskarðs þá þrjá daga sem hún stendur yfir.
„Þetta lítur bara afskaplega vel út. Helsta breytingin nú frá árum áður er að við erum aðeins þrengja viðburðasvæðið í og við Oddsskarðið en síðustu árin höfum við verið að fara ferðir í önnur fjalllendi hér í kring. Slíkt er viðameira verkefni og kostnaður hærri svo í ár prófum við að halda okkur á einu og sama svæðinu. Við erum einnig að fækka dögunum niður í þrjá en engu að síður að bjóða engu minna úrval ferða og skemmtana en fyrri ár þegar hátíðin hefur verið lengri.“
Sævar segir að vegna góðs stuðnings fyrirtækja og stofnana geti nú áhugasamir tekið þátt sér að kostnaðarlausu.
„Þetta eru mjög vel skipulagðar ferðir með topp leiðsögu- og fararstjórum sem getur kostað sitt svo ég leitaði til nokkurra aðila með stuðning og það gekk svo vel eftir að fyrirtækin Eskja og Red Bull auk Uppbyggingasjóðs Austurlands styrkja okkur það duglega að nú er bara frítt að vera með í ferðunum. Að auki er sérstilboð í brekkurnar í Oddsskarðinu alla helgina og það í viðbót við flotta veðurspá er ávísun á mjög skemmtilegan tíma fyrir skíðaáhugafólk.“