Skip to main content

„Fólk vill hafa sjoppu í sveitarfélaginu“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. feb 2025 17:51Uppfært 26. feb 2025 17:52

Jón Haraldsson og Birgitta Þóra Sigurðardóttir tóku um áramótin við rekstri söluskálans Öldunnar á Vopnafirði. Þau boða enga byltingu á rekstrinum, heldur að áfram verði tryggð þjónusta sem Vopnfirðingar og gestir þeirra vilja hafa.


Fjölskylda Jóns hefur undanfarinn áratug byggt upp ferðaþjónustu á Ásbrandsstöðum, skammt innan við þéttbýlið í Vopnafirði. Þar eru núna komin þrjú sumarhús og safn um landpóstana, sem er hugarfóstur Jóns. Birgitta fluttist austur og kom inn í starfsemina síðasta vor en hún er uppalin á Suðurlandi og hefur starfað í ferðaþjónustu á nokkrum stöðum á landinu.

Jón segir að ferðaþjónustan í Vopnafirði sé ekki það máttug að hún standi undir heilsársstörfum á Ásbrandsstöðum. Þau sáu tækifæri þegar rekstur söluskálans var auglýstur síðasta haust.

Sjoppan nauðsynlegur hluti af þjónustunni á staðnum


N1 er eigandi skálans og leigir bæði hann og búnaðinn til Jóns og Birgittu. Lokað var í stuttan tíma í kringum áramótin á meðan skiptin fóru fram og opnað aftur þriðjudaginn 14. janúar. Sá tími undirstrikaði að spurn er eftir söluskála á Vopnafirði.

„Fólk vill hafa sjoppu í sveitarfélaginu og við fundum fyrir því þær tvær vikur sem lokað var. Það var komin óþreyja í fólk þegar við opnuðum,“ segir Jón.

Í sjoppunni má fá skyndibita á borð við pizzur, hamborgara og pylsur, nammi og nauðsynjavörur á borð við tannbursta og mjólk og loks bílavörur. Sjoppan eykur bæði vöruúrval og opnunartíma á Vopnafirði

Vilja halda góðum rekstri áfram


Jörgen Sverrisson og Sigurbjörg Halldórsdóttir hafa rekið Ölduna undanfarin ár. Jón segir enga ástæðu til að bylta staðnum þótt breytingar fylgi alltaf nýju fólki. „Aldan hefur verið mjög vel rekin og við viljum halda því áfram. Við höfum ekki gert neinar breytingar enn, heldur ætlum við hægt í þær.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.