Skip to main content

Flytur sígildar söngperlur fyrir heimafólkið sitt á Vopnafirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. ágú 2025 15:23Uppfært 14. ágú 2025 15:53

Vopnfirðingurinn og söngkonan Guðný Alma Haraldsdóttir, með fulltingi píanóleikarans Péturs Nóa Stefánssonar, bjóða söngelsku fólk úr firðinum upp á tónleika í Miklagarði í kvöld en aðgangur er alls ókeypis. Þar skal flytja sígildar íslenskar söngperlur sem flestir þekkja.

Guðný Alma er frá bænum Ásbrandsstöðum, örskammt frá þorpinu, og það var fyrir mikinn tónlistaráhuga móður sinnar sem hún fór að fá áhuga á söng á unga aldri að hennar sögn.

„Ég reyndar alltaf haft áhuga á söng og tónlist og var nánast byrjuð að syngja áður en ég fór að tala að ráði. Sá áhugi hefur bara aukist með tímanum; ég hóf tónlistarnám hér upphaflega og meðfram söng- og píanónámi við Tónlistarskólann á Akureyri lauk ég kirkjuorganistaprófi nú í vor. Við hjónakornin ákváðum að þar sem við yrðum hér á Vopnafirði þennan dag áður en við þurfum að halda suður til Hveragerðis, sem er heimabær Péturs Nóa, að slá tvær flugur í einu höggi og halda tónleika á báðum okkar heimastöðum. Það verður ótrúlega gaman að syngja hér fyrir fólkið og ég vona að sem flestir mæti.“

Eitt músíkalskt hjarta

Tónleikar þeirra í kvöld bera heitið Eitt hjarta músíkalskt á Vopnafirði og hefjast þeir klukkan 20. Þremur sólarhringum síðar endurtaka þau leikinn í Hveragerðiskirkju en þar verður haldin bæjarhátíðin Blómastrandi dagar um komandi helgi.

Þaðan er Pétur Nói sem hefur stundað píanónám frá sex ára aldri, lauk kirkjuorganistaprófi fyrir tveimur árum og hefur komið fram með ekki minni sveitum en Söngsveit Fílharmoníu og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna.

Aðspurð út í dagskrá kvöldsins segir Guðný Alma að lagalistinn samanstandi af sígildum og skemmtilegum perlum úr tónlistarsögu Íslands.

„Þetta eru svona söngperlur sem hér um bil allir ættu að þekkja og jafnvel kunna. Lög sem mikilvægt er að halda á lofti og lífi því söngarfurinn okkar er mikilvægur og fjölmörg dásamleg lög sem við Íslendingar eigum úr fortíðinni. Við tökum nokkur lög Páls Ísólfssonar meðal annars við ljóð Davíðs Stefánssonar. Við flytjum líka lög og ljóð eftir Karl H. Runólfsson, Sigfús Einarsson og Austfirðinginn Inga T. Lárusson svo fátt sé nefnt.“

Vopnfirðingar, nærsveitarmenn og gestir geta notið ljúfra tóna Guðnýjar og Péturs í allt kvöld í félagsmiðstöðinni Miklagarði frá klukkan 20 í kvöld en allir eru boðnir velkomnir. Mynd: Aðsend