Fljótsdalshreppur býr sig undir tap vegna eigna í sjóðum


Í fréttum fjölmiðla hefur komið fram að meðal þeirra aðila sem geymt hafa fjármuni í svokölluðum peningasjóðum séu minni og meðalstór sveitarfélög. Þau gætu þurft að afskrifa hluta þeirra fjármuna sem lagðir hafa verið í sjóðina.
Fljótsdalshreppur er eitthvert stöndugasta sveitarfélag landsins. Innan marka hans er Fljótsdalsstöð, og hefur hreppurinn haft umtalsverðar tekjur af virkjanaframkvæmdum undanfarin ár. Íbúar hreppsins í janúar 2008 voru um 360. 

Gunnþórunn Ingólfsdóttir oddviti sagði í samtali við Austurgluggann að undanfarin þrjú ár hafi hreppurinn verið í viðskiptum við Landsbankann og verið í eignastýringu þar með hluta af sinni peningaeign. Hún segir augljóst að einhverst staðar þurfi að geyma peninga sem ekki eru í notkun. 

Aðspurð um hvort hreppurinn eigi fjármagn í peningasjóðum segir hún: „Það getur alveg vel verið. Einhvers staðar verðum við að geyma peningana. Það er ekkert leyndarmál að hluti okkar fjármagns hefur verið í eignastýringu hjá Landsbankanum. Það er verið að meta þessi sjóði og við vitum í raun ekki hversu miklu eða hvort við töpum peningum vegna þessa.” segir Gunnþórunn.

Hversu stórar fjárhæðir um er að ræða vill Gunnþórunn ekki tjá sig um. Hvort tapið gæti numið tugum milljónum eða nokkrum milljónum vildi hún ekkert gefa út á. „Eins og ég sagði þá verður það ekki gefið upp fyrr en við vitum hvernig þessir sjóðir standa. Menn búa sig undir rýrnun og fjárhæðir verða ekki gefnar upp fyrr en við vitum hvert tjónið er.” sagði Gunnþórunn í samtali við Austurgluggann í dag.
fljotsdalur_myndbrot.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.