Skip to main content

Fljótsdalsvirkjun fékk gullvottun í umfangsmikilli sjálfbærniúttekt

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. ágú 2025 19:04Uppfært 21. ágú 2025 19:04

Fljótsdalsstöð fékk nýverið gullvottun í sjálfbærni Hydropower Sustainability Standard sem, eins og nafnið ber með sér, er með staðal fyrir sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. Í úttektinni kom fram að fyrirtækið geti gert betur í að efla nærsamfélagið.


Úttektin sjálf fór fram síðasta haust, en hún fól meðal annars í sér 52 viðtöl við 68 viðmælendur, bæði innan og utan Austurlands. Niðurstöðunum var skilað í umfangsmikilli skýrslu í vor sem er yfir 100 síður að lengd.

Metnir eru 12 þættir í rekstrinum. Til að hljóta gullvottunina þarf að ná yfir 80% af ýtrustu kröfum staðalsins. Þættirnir byggja á þeim atriðum sem sjálfbær þróun snýst um, að viðhalda umhverfi, samfélagi og efnahag.

Í samantekt úttektaraðilanna segir meðal annars að í Fljótsdalsstöð/Kárahnjúkavirkjun sé til staðar umfangsmikil vöktun, sem hafi útvíkkuð eftir tilskipanir Evrópusambandsins um flokkun og vatnavernd. Viðbrögð stjórnenda í þeim málum sem komið hafa upp þykja snögg og skilvirk. Þá er hrein losun Landsvirkjunar lág og stöðugt unnið að úrbótum.

Þyrfti að leggja meira inn í nærsamfélagið


En þótt vottunin hafi komið vel út þá var í henni líka bent á tækifæri til úrbóta. Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri, sagði að ábendingarnar væru meðal annars um að fyrirtækið þyrfti að vera sýnilegra í nærsamfélaginu og skilja meira eftir af arði virkjunarinnar þar.

„Við höfum verið mjög skýr með það í ansi mörg ár að það þurfi að huga betur að þessari skiptingu og gera hana sanngjarnari. Það er að segja, að þar sem áhrifin eru hvað mest fái fólk sérstaklega ávinning vegna þess. Þetta eru skilaboð sem ég hef reynt að koma á framfæri við stjórnvöld en það er auðvitað á færi þeirra að setja reglur þar að lútandi,“ sagði hún.

Mynd: Landsvirkjun