Skip to main content

Fleiri sjálfboðaliða vantar bæði á Egilsstöðum og í Neskaupstað

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. júl 2025 17:02Uppfært 01. ágú 2025 17:24

Það engar fréttir að framboð á sjálfboðaliðum í hin ýmsu, en mismikilvægu störf, hefur farið minnkandi ár frá ári um langt skeið. Sjálfboðaliða vantar nú þegar bæði á Egilsstöðum vegna Unglingalandsmótsins en ekki síður á Neistaflugshátíð Norðfirðinga.

Allt útlit er fyrir að velflest sé að ganga upp á viðburðum á Austurlandi þessa Verslunamannhelgi en sá landshluti nánast sá eini sem fær að mestu gott sumarveður fram á mánudaginn kemur ef spár ganga eftir.

Að halda helgott helgarpartí í Neskaupstað eða utan um tíu þúsund manna íþróttamót á Egilsstöðum krefst þess að sjálfboðaliðar rétti hjálparhönd því að afar mörgu er að hyggja svo allt fari vel fram og dagskrá riðlist ekki að ráði.

Hjálparhandar er þörf

Þó yfir 400 sjálfboðaliðar hafi bókað sig til að aðstoðar á Héraði við að halda utan um þær 21 íþróttagreinar sem keppt verður í á Unglingalandsmótinu næstu dagana á Egilsstöðum og í Fellabæ þarf meira til. Skortur er á meira fólki nú þegar að sögn Maríu Sigurðardóttur, sem umsjón hefur með sjálfboðaliðum yfir Unglingalandsmótið.

„Okkur vantar í borðtennis á morgun og svo í handboltann sem er á laugardaginn á þessari stundu,“ sagði María þegar Austurfrétt náði tali af henni nú síðdegis.

„Nú vantar okkur bæði dómara og stigateljara í borðtennis frá klukkan 12 til 18 á morgun. Á laugardaginn vantar ennfremur sex stigateljara vegna handboltans og þrjá stigateljara í borðtenniskeppnina. Svo vantar okkur ræsi og tímavörð í sundlaugarkeppnina en einhver hefði áhuga á slíku. Allir áhugasamir mega gjarnan hafa samband beint við mig í síma 845 7774.“

Pínkupons vantar upp á í Neskaupstað

Bæjarhátíðin Neistaflug fer líka fram nú í Neskaupstað og samkvæmt heimildum Austurfréttar er nokkuð umferð aðkomufólks nú þegar. María Bóel Guðmundsdóttir fer fremst í flokki skipuleggjenda hátíðarinnar og sú skipulagning gengið vel þó aðeins vanti upp á.

„Þetta byrjar vel hjá okkur og fullt af fólki á fyrstu viðburðunum í gær og á tjaldsvæðinu okkur er orðið nokkuð þétt af fólki.. Eins og sakir standa vantar aðeins upp hjálpina ef einhver hefur áhuga. Helst vantar okkur fólk til að hafa yfirlit yfir viðburði fyrir unga fólkið en þar erum við aðeins að  tala um átta til tíu manns svo vel fari. Áhugasamir mega gjarnan hafa samband við mig beint eða aðra sjálfboðaliða ef áhugi er fyrir hendi svo allt gangi snurðulaust.“