Fleiri en á fyrstu Eistnaflugshátíðinni

„Ég fékk þessa hugmynd á vormánuðum og nú er hún orðin að veruleika,“ segir Arnar Guðmundsson, sem stendur fyrir tónleikaröðinni V-5 bílskrúspartý við heimili sitt í Neskaupstað alla þriðjudag í júní og júlí.

Fyrstu tónleikarnir í Valsmýri 5 voru síðastliðinn þriðjudag og fór mætingin fram úr öllum vonum.

„Það er alltaf verið að hugsa um hvernig við getum fengið ferðafólk til okkar og að það þurfi að gera eitthvað til þess. Á sama tíma er talað um að allt sé svo dýrt að fólk sæki ekki viðburði þó svo eitthvað sé gert. Það er ókeypis inn á þessa tónleika, enda tilkostnaðurinn enginn, hingað koma þær hljómsveitir sem hafa áhuga á að koma og spila klukkan átta á þriðjudagskvöldum í sumar.

Fyrstu tónleikarnir sem voru síðasta þriðjudagskvöld gengu ótrúlega vel. Það var skítakuldi og rétt hékk þurrt og ég bjóst við kannski fimm manns, enda eru þetta útitónleikar. Það komu hinsvegar 47 manns sem nutu tónlistar í góða klukkustund, það er nú bara meiri fjöldi en var á fyrstu Eistnaflugshátíðinni,“ segir Arnar og hlær.

Jákvæð viðbrögð
Arnar segist ekki hafa sagt mörgum frá hugmyndinni í upphafi. „Ég hafði samt samband við sveitarfélagið sem tók vel í þetta og lét útbúa póstkort sem auglýsir tónleikaröðina, en þau munu liggja á hótelum og öðrum ferðamannastöðum í sumar – svona Meet the locals dæmi.

Konan mín, Ingibjörg Þórðardóttir, hafði nú ekki mikla trú á því að þetta yrði að veruleika en hún er mjög sátt við þetta í dag. Ég hef aðeins fengið jákvæð viðbrögð og þetta hefur vakið mikið umtal í bænum. Ég held að fólk átti sig á því að ég er ekki að þessu til þess að græða, heldur að það séu enn til einstaklingar sem vilja láta gott af sér leiða, kannski gamli ungmennafélagsandinn.“

Tækifæri fyrir tónlistarfólk
Fjölmargir munu koma fram í Valsmýrinni í sumar, þar á meðal Arnar sjálfur með sína hljómsveit DDT skordýraeitur. „Nafnið á henni er nú bara húmor hjá okkur sem hana skipa, við erum allir kennarar í Verkmenntaskólanum og miklir umhverfissinnar, en eins og flestir vita þá er DDT baneitrað og drepur allt í náttúrurnni.

Í kvöld spilar hljómsveitin Á gráu svæði sem er mjög skemmtileg, örlítið rappskotin. Júlímánuður verður alveg magnaður en okkur vantar ennþá að fylla næsta og þarnæsta þriðjudag þannig að áhugasamir mega endilega hafa samband við mig, en það má vera hvað sem er.“

Hér má kynna sér dagskrána.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.