Fjórhjólið seldist upp á Seyðisfirði

Síðasti dagur flugeldasölu og þar sem almenningur hefur leyfi til að skjóta upp flugeldum er í dag. Á Seyðisfirði hefur verið ágætis sala því heimafólk vill styðja við bakið á björgunarsveitinni Ísólfi.

„90% sölunnar er um áramótin, mest á gamlársdag. Á þrettándanum kemur fólk og kaupir eina litla tertu og bætir við stjörnuljósi fyrir börnin,“ segir Haraldur Björn Halldórsson sem var á vakt í flugeldasölu Ísólfs þegar Austurfrétt átti þar leið um í dag.

Hann segir Seyðfirðinga duglega í flugeldakaupum. „Mín tilfinning er að það sé skotið upp í að minnsta kosti öðru hverju húsi á gamlárskvöld. Ég held fólk hugsi flugeldana sem stuðning við björgunarsveitina frekar en að það sé svo skotglatt.

Það fannst í fyrra að það var ekki sama stemming eftir skriðuföllin. Hávaðinn kann að vekja upp ónot. Fjörðurinn er svo lokaður að sprengingarnar glymja í fjöllunum þótt mér finnist það skemmtilegt því það eykur á áhrifin. Eftir það hefur fólk fært sig meira yfir í friðarkerti og rótarskot því það vill styrkja sveitina.“

Haraldur segir minna skotið upp á þrettándanum og til að mynda er engin flugeldasýning á Seyðisfirði í dag. „Þetta eru restarnar, fjölskyldufólkið er að klára úr sínum pökkum. Við vonumst til að koma sem mestu út því við þurfum að taka flugeldana úr hillunum og koma þeim annað í geymslu.“

Að þessu sinni bættist í úrval flugeldanna tertur sem nefndar eru eftir tækjum á borð við fjórhjól en sú terta seldist afar vel á Seyðisfirði. „Þetta eru metnaðarfullir pakkar, fjórhjólið var með 90 skotum á 53 sekúndum þannig það var mikið að gerast. Við skutum henni sjálfir upp því við vildum vita hvað við værum með í höndunum. Þá fór fólk að koma og sagðist vilja fá eina svona,“ segir Haraldur en fjórhjólið var uppselt seinni partinn í dag.

Annars eru minni tertur vinsælasta varan. „Þetta eru tertur á borð við Sturlu Þórðarson og Þórð mostraskegg. Þetta eru svokallaðir blævængir sem fara upp til hliðanna. Með þessum tertum fær fólk mikið fyrir peninginn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.