Fjöldi viðburða næstu dagana á þriðju Ljósmyndahátíð Seyðisfjarðar
Hátíðin Ljósmyndadagar á Seyðisfirði hefst formlega á morgun og stendur til 10. maí en hátíðin hefur tryggilega fest sig í sessi í bænum enda nú haldin í þriðja skiptið.
Eins og með fyrri hátíðirnar er það Jessica Auer hjá Ströndin Studio sem hefur veg og vanda af skipulagningunni en hátíðin skiptist bæði í röð námskeiða undir leiðsögn alþjóðlegra listamanna og kvikmyndagerðarmanna og fjölda ókeypis viðburða sem opnir eru gestum og gangandi.
Áhugi bæði listamannanna og almennings fer síst minnkandi að sögn Jessicu og til marks um hve vel gengur er að nú þegar hefur verið gengið frá samkomulagi við listamenn sem þátt munu taka á næsta ári. Hátíðin því ein enn sem komin er til að vera.
„Við skiptum þessu alltaf niður þannig að eitt árið er fókusinn á ljósmyndir en næsta ár á eftir er það kvikmyndaformið eins og nú verður. Fyrst og fremst gengur þetta út á vinnustofurnar í þær allar er fullt en þar er helst um að ræða áhugasama sem koma hingað annars staðar frá. Við pössum þó að leyfa samfélaginu hér að vera með gegnum þann fjölda ókeypis viðburða sem í boði eru en ekki síður með tveimur sérstökum viðburðum sem við auglýsum bara hér fyrir austan. Þeir ætlaðir ljósmyndurum af svæðinu annars vegar og svo er barnadagskrá líka.“
Meðal þess sem verður í boði fyrir alla sem vilja eru kvikmyndasýningar og kvikmyndagjörningar, samfélagskvöldverður og sérstakt listamannaspjall lokadaginn sem mun fara fram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Sem fyrr er hátíðin styrkt af Austurbrú, Múlaþingi, Skaftfelli og hópnum Fiskisúpa Ljósmyndasósa.