Fjöldi þátttakenda í Bakgarðshlaupinu á Reyðarfirði tvöfaldaðist milli ára
Hartnær tvöfalt fleiri tóku þátt í Bakgarðshlaupinu sem fram fór á Reyðarfirði á laugardaginn va en í sama hlaupi fyrir ári síðan. Vel rúmlega 800 þúsund krónur söfnuðust í styrktarsjóð samtakanna Arnarins sem bjóða upp á sorgarúrvinnslu fyrir börn og unglinga sem misst hafa náin ástvin.
Þetta annað formlega bakgarðshlaup sem haldið er á Austurlandi tókst frábærlega að sögn Gunnars Lárusar Karlssonar, eins skipuleggjenda hlaupsins, en slík hlaup hafa náð miklum vinsælum á fáeinum árum. Þurfa keppendur að ljúka 6,7 kílómetra löngum hlaupahring á hverri klukkustund til að halda sér inni og sá sem lengst heldur út stendur uppi sem sigurvegari.
„Við sáum það auðvitað á skráningum í aðdragandum að fjöldi þátttakenda var miklu meiri en við áttum von á en við náum með samhentu átaki að miða undirbúning við þann fjölda og það tókst allt vel með góðri aðstoð einstaklinga og fyrirtækja á borð við Eyrina heilsurækt. Þarna var töluverður fjöldi fólks sem ég hef ekki séð áður og veit til þess að fólk var að koma frá nágrannabæjum og reyndar alla leið frá Hornafirði í einu tilviki. Þetta endurtökum við klárlega að ári.“
Í bæði skiptin sem hlaupið hefur farið formlega fram fer það fram til styrktar góðs málefnis og runnu öll skráningargjöld rakleitt til Arnarins að þessu sinni.
„En heildarupphæðin sýnir glögglega hvað fyrirtæki og aðrir sem ekki voru beint að hlaupa lögðu þessu sterkt lið því skráningargjöldin samanlagt voru aðeins um 250 þúsund eða svo en heildarupphæðin sem safnast hefur er vel rúmlega 800 þúsund.“
Hluti þátttakenda á þessari mynd frá Önnu Sigrúnu Jóhönnudóttur en í hópnum voru ekki aðeins ofurhlauparar heldur heilu fjölskyldurnar sem notuðu tækifærið og hlupu styttri vegalengd til að vera með. Mynd: Aðsend