Skip to main content

Fjöldi samtímaljósmyndara opna sumarsýningu Sláturhússins á laugardag

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. jún 2025 14:56Uppfært 12. jún 2025 15:09

Hvorki fleiri né færri en 31 íslenskir samtímaljósmyndarar tóku sig saman til að setja á fót sumarsýningu menningarmiðstöðvarinnar Sláturhússins á Egilsstöðum en sýningin mun opna síðdegis á laugardaginn kemur.

Allir eru ljósmyndararnir sem þátt taka meðlimir Félags íslenskra samtímaljósmyndara og þar á meðal allmargir þekktir ljósmyndarar á borð við Spessa, Einar Fal Ingólfsson og Rúnar Gunnarsson svo fáir séu nefndir auk töluverðs fjölda ljósmyndara frá Austurlandi.

Heiti sýningarinnar og þema er orðið Hiraeth sem kemur úr velska tungumálinu og stendur fyrir djúpa, tilfinningarþunga þrá eftir heimili. Heimili sem kannski aldrei var til, hefur glatast eða er óafturkræft.

Allir ljósmyndararnir sýna verk sem beint eða óbeint tengjast þessu þema og verkin af æði ólíkum toga. Þar andlitsmyndir, landslagsmyndir sem og óhlutbundnar hugleiðingar. Í öllum verkunum er verið að kanna tilfinningar eins og minni, fjarveru, ímyndaða þægindastaði eða einfaldlega hugmyndina um að tilheyra.

Sýningarstjóri er Yael BC en sumarsýningin opnar formlega klukkan 16 á laugardaginn kemur. Nánari upplýsingar má finna á vef Sláturhússins hér.