Skip to main content

Fjöldi austfirskra smáframleiðenda kynna kræsingar að Lindarbrekku í Berufirði á sunnudag

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. ágú 2025 14:17Uppfært 20. ágú 2025 15:20

Að minnsta kosti fjórtán austfirskir smáframleiðendur bjóða til veislu að Félagsbúinu Lindarbrekku í Berufirðinum á sunnudaginn þegar Beint frá býli dagurinn fer fram í öllum landshornum.

Sem og verið hefur undanfarin ár vex áhugi almennings á hvers kyns kræsingum úr nærhéraði hröðum skrefum og sömu sögu að segja á Austurlandi en hundruðir gesta sóttu sama viðburð fyrir ári síðan í Fljótsdal. Viðburðurinn er samstarfsverkefni samtakanna Beint frá býli og Samtaka smáframleiðenda matvæla en fyrir ári telst mönnum til að eigi færri en 4.500 manns hafi sótt viðburðina heim á landsvísu.

Innandyra fyrsta sinni

Bergþóra Valgeirsdóttir Pedersen ber hitann og þungann af undirbúningnum í þetta skiptið sem hún segir ganga vel og allt verði vel klárt fyrir gesti þegar þar að kemur. Ólíkt fyrri skiptum fer kynning smáframleiðendanna fram innandyra í stórri vélaskemmu svo veður mun ekki setja neitt strik í reikninginn þó spáin þegar þetta er skrifað lofi góðu.

„Það er tilhlökkun á þessum bænum að halda þennan flotta viðburð og vonandi fjölgar þeim áfram sem sýna þessu áhuga eins og raunin hefur verið ár frá ári síðustu árin. Það var ágætt spark í rassinn fyrir mig að þurfa að huga að þessum undirbúningi auk annars því það varð til þess að við tæmdum vélaskemmuna hér, tæmdum hana alveg og hefur nú verið tekin algjörlega í gegn. Það mun fara vel um framleiðendur og gestina sem hingað koma hvernig sem viðrar.“

Kaffi, kleinur og sitthvað fyrir smáfólkið

Bergþóra segir enn ekki útilokað að enn fleiri smáframleiðendur bætist við þá fjórtán aðila sem þegar eru skráðir og nóg er plássið aukreitis í skemmunni.

„Ég veit ekki betur en þetta sé metþáttaka smáframleiðenda hér fyrir austan og gleðilegt væri ef gestafjöldinn heldur áfram að aukast líka. Við erum í mikilli alfararleið fyrir marga og tímasetningin fín því nú er allt skólastarf að fara að hefjast eftir helgina svo það er fínt fyrir fólk að taka rúntinn hingað og brjóta aðeins upp daginn áður en haustið fer að gera vart við sig.“

Þó hægt verði að bragða á hinum ýmsu vörum smáframleiðenda verður vitaskuld hægt að næla sér í kaffi, meðlæti eða samlokur sem Íþróttafélagið Neisti á Djúpavogs selur á staðnum. Hoppukastali ætti að kæta smáfólkið ef kræsingarnar gera það ekki og svo segir Bergþóra að ekki þurfi mörg skref að fara til að komast í heilu brekkurnar sem troðnar eru af stórum og fallegum berjum.

Viðburðurinn stendur frá klukkan 13 á sunnudag til klukkan 16.

Lindarbrekka er á fallegum stað innarlega í Berufirði og þangað ættu allir sælkerar á Austurlandi að leggja leið sína um helgina. Mynd Lindarbrekka