Skip to main content

Fjármagn vantar í bráðaþjónustu við andlega veikt fólk á Austurlandi

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. maí 2025 15:37Uppfært 16. maí 2025 15:39

Sigurlín Hrund Kjartansdóttir, yfirsálfræðingur HSA, vekur athygli á alvarlegum skorti á fjármagni í bráðaþjónustu fyrir andlega veikt fólk á Austurlandi. Þrátt fyrir miklar framfarir í geðheilbrigðisþjónustu undanfarin ár er engin geðbráðaþjónusta til staðar í landsfjórðungnum, sem veldur löngum biðlistum. Dæmi eru um að alvarlega veikir einstaklingar séu sendir suður en jafnvel hafnað þar.

Mikil uppbygging í geðheilbrigðisþjónustu HSA


Sigurlín Hrund Kjartansdóttir hefur verið yfirsálfræðingur Heilbrigðisstofnunar Austurlands frá árinu 2018 og leiðir geðheilsuteymi stofnunarinnar. Hún er uppalin á Fáskrúðsfirði og útskrifaðist úr Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1997. Eftir að hafa unnið í fiskvinnslu í tvö ár hóf hún háskólanám í sálfræði og réðst samhliða til starfa á geðsvið Landspítalans.

Sigurlín útskrifaðist sem sálfræðingur árið 2005 og fékk sérfræðiviðurkenningu í klínískri sálfræði með réttarsálfræði sem undirgrein árið 2015. Eftir 15 ár á ýmsum sviðum geðsviðs Landspítalans flutti hún ásamt manni sínum austur árið 2018, þegar auknar fjárveitingar höfðu borist til geðheilbrigðismála til að stofna geðheilsuteymi.

Sérfræðiþekking Sigurlínar er mikilvæg fyrir uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustunnar á Austurlandi, sem hefur tekið miklum framförum undanfarin ár. Þó segir hún enn vanta einkareknar sálfræðistofur á svæðið og þar þurfi ríkið að skoða sína samninga. „Það verður að gera samninginn betri þannig að sálfræðingar skrái sig á hann og mögulega umbuna sérstaklega fyrir fjarþjónustu," segir hún.

Sprengja í tilvísunum sýnir uppsafnaða þörf


Geðheilsuteymi HSA hefur upplifað gríðarlegan vöxt í tilvísunum frá stofnun. Árið 2020 bárust 170 tilvísanir en síðustu tvö ár hafa þær verið um 380-400.

„Það var sprenging fyrsta árið, það var greinilega mikil uppsöfnuð þörf," segir Sigurlín, en teymið hefur verið verið með um fjögurra mánaða biðlista, það er sá sími sem líður frá tilvísun fram að viðtali. Á meðan er fylgst með þeim sem eru á biðlistanum, meðal annars með rafrænum spurningalistum, og einstaklingar færðir fram fyrir í röðinni ef merki um afar bráðan vanda sjást.

Teymið býður líka upp á hópnámskeið í hugrænni atferlismeðferð, bæði á íslensku og ensku. „Þau eru um hvaða áhrif hugsanir hafa á líðan og hegðun. Við erum öll með sjálftal sem hefur greiðan aðgang að okkur og stundum erum við að segja tóma steypu við okkur. Það skiptir máli að æfa sig í að taka eftir þessum hugsunum sem skjóta upp kollinum til að geta unnið með þær."

Fjölgun áfalla og aukinn vilji til að þiggja hjálp


Teyminu hefur verið mikil áskorun að takast á við áföll sem dunið hafa á austfirsku samfélagi. Stofnunin fékk aukafjárveitingu í haust eftir mikil áföll á svæðinu sem snérust um skyndileg dauðsföll. „Þetta voru mörg viðtöl þar sem þetta snerti stóran hóp."

Sigurlín segir að á fáum árum hafi orðið merkjanlegur munur á viðhorfum fólks til þess að leita sér samtalsmeðferðar. „Fólkið í samfélaginu sækir sér markvisst aðstoð, eins og að mæta í fjöldahjálparmiðstöðvar eða á opna fræðslufundi. Fólk viðurkennir frekar að það hafi þörf fyrir að tala um atburðinn, jafnvel þótt það sé ekki skylt þeim sem lenda í honum. Það eru samfélagslegu áhrifin."

Hún bendir á að sorgaratburðir skapi samúðaráhrif og að fólk tengi jafnvel við eigin eldri sorg. „Kannski erum við loks núna búin að búa til kerfi sem hjálpar fólki til að takast á við eldri áföll. Ég held að það sé svæði í heilanum á okkur sem geymir þau, eins og mappa sem síðan opnast við nýtt áfall og það gamla flæðir upp."

Þrautseigja í andlegu heilbrigði


Sigurlín segir að fólk komist yfirleitt í gegnum áföll án þess að þróa með sér varanleg einkenni. „Við erum gerð til að takast á við áföll. Langflestir komast í gegnum áföll án þess að þróa með sér áfallastreituröskun. Í klínískum leiðbeiningum er ekki mælt því að greina fólk með hana fyrr en hálfu ári eftir viðburð. Fyrstu einkenni eru skiljanleg en eiga að fjara út."

Þegar Sigurlín er spurð um aukinn kvíða hjá börnum og ungu fólki bendir hún á breyttar samfélagsaðstæður. „Við búum við svo mikið öryggi í dag. Það er miklu sjaldgæfara í dag að fólk til dæmis missi börn. Hér áður var ungbarnadauði algengari sem og slysadauði. Hætturnar eru orðnar færri en síðan hefur samfélagsgerðin og uppeldisaðferðir einnig breyst."

Hún bendir á að kvíði barna birtist oft sem ótti við að vera ein eða áhyggjur af því að eitthvað komi fyrir foreldra. „Það þarf ekki flóknar aðferðir til að vinna á þessu og styrkja börnin. Það er stundum í lagi að líða illa og maður þarf að takast á við ótta sinn -- en það er hægt að gera það í litlum skrefum."

Brotalamir í bráðageðþjónustu


Þrátt fyrir framfarir í geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi eru enn brotalamir í kerfinu. Sigurlín bendir á að engin geðbráðaþjónusta sé til staðar. „Hjá okkur eru alltaf biðlistar og við vinnum eftir þeim. Það er engin geðbráðaþjónusta."

Ástandið er sérstaklega alvarlegt þegar kemur að bráðaveiku fólki: „Við höfum sent fólk með sjúkrabíl, þar var búið að ræða við bráðaþjónustuna fyrir brottför, það fer í bráðaviðtal en er samt ekki lagt inn. Þá er viðkomandi strand í Reykjavík. Hvað þá? Hver á passa upp á hann eða hjálpa honum heim?"

Sigurlín undirstrikar alvarlegan skort á úrræðum fyrir alvarlega veikt fólk: „Þarna er lítið á milli fyrir fólk sem er alvarlega veikt. Geðheilsuteymið sinnir fólki með alvarlegan vanda en það er samt sem áður bara á virkum dögum og það er bið eftir úrræðum. Þjónustan er ekki gerð til að grípa fólk hratt."

Búsetuúrræði og eftirfylgni skortir


Annað alvarlegt vandamál sem Sigurlín bendir á er skortur á búsetuúrræðum fyrir fólk með geðraskanir. „Hér eru líka alvarlega veikir einstaklingar sem búa inn á foreldrum og komast ekki í sjálfstæða búsetu því þau geta ekki hugsað um sig sjálf, en fá samt ekki aðstoð við húsnæði því það eru ekki til nógu margar íbúðir á Austurlandi fyrir fólk með geðrænar raskanir."

Sigurlín leggur áherslu á þörfina fyrir sólarhringsþjónustu: „Þær þurfa ekki að vera sérstaklega útbúnar en einhver þarf að vera tiltækur og jafnvel á vakt allan sólarhringinn."

Kallað eftir auknu fjármagni í bráðateymi


Mikið veikir einstaklingar njóta forgangs í kerfinu, sem þýðir að biðlistar minnka lítið á meðan. „Þess vegna þarf fjármagn í bráðateymi sem gæti farið í þessi mál til að ná sambandi og tryggja eftirfylgnina og bregðast við bráðamálum þegar þau koma upp á Austurlandi. Við höfum ekkert fjármagn í bráðaþjónustu en þurfum samt að veita hana."

Sigurlín bendir þó á að innlögn sé ekki alltaf lausnin: „Stundum dugir að setjast saman niður og finna út hvað við getum gert til að styðja hvert annað, mögulega með fjölskyldu og vinum. Það er oft sterkasta vörnin til að hindra frekari skaða."

Andleg heilsa og samfélagsbreytingar


Andleg heilsa tengist einnig breytingum í samfélagi okkar. Sigurlín nefnir aukið álag vegna Covid-faraldursins og ört breytilegan heim: „Við erum gjörn á að horfa ekki á ástand taugakerfisins. Við lærum bara að við getum ótrúlega mikið, eins og að vinna mikið og lengi. Þar til allt í einu að við getum ekki meir."

Hún minnir á mikilvægi þess að hlúa að sjálfum sér: „Við höfum öll okkar mörk þótt við vitum ekki hver þau eru. Við ætlum að keyra okkur í gegnum törn en svo kemur aldrei að fríinu. Þetta reynir á líkamann og við getum ekki verið í svona ástandi nema tímabundið."

Sjálf sækir Sigurlín í fjárhúsið til að slaka á, eftir að hafa ásamt manni sínum keypt jörð í Hróarstungu árið 2023. „Ég fer í fjárhúsið. Það hjálpar mér. Ég reyni líka að skemmta mér. Ég skipulegg eitthvað fram í tímann til að hlakka til. Ég mæli með því og að passa sig á að standa við það að taka frá daga í eitthvað sem þér finnst skemmtilegt og njóta þeirra vel."

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.