Orkumálinn 2024

Fjarðabyggð styður við Sparisjóð Norðfjarðar

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt þá málaleitan Sparisjóðs Norðfjarðar að sveitarfélagið komi að því að auka eigið fé sparisjóðsins. Yfirtekur Fjarðabyggð lífeyrisskuldbindingar sparisjóðsins við Lífeyrissjóð Neskaupstaðar, en bæjarstjóður ber bakábyrgð á þeim. Andvirði þeirra skuldbindinga verður síðar breytt í stofnfé í sparisjóðnum.

peningar.jpg

Heildarfjárhæð framlags Fjarðabyggðar verður um hundrað og fjörtíu milljónir króna og er reiknað með að greiddar verði mánaðarlega sexhundruð þúsund krónur til lífeyrissjóðsins.

Í tilkynningu frá Sparisjóði Norðfjarðar kemur fram að við hrun stóru viðskiptabankanna  í byrjun október hafi bankinn orðið fyrir töluverðu tjóni. Það hafi leitt af sér að eiginfjárhlutfallið fór niður fyrir lögbundið lágmark sem er 8%. Helstu ástæður þess að svo fór eru að gagnstætt við aðrar fjármálastofnanir síðustu misserin hefur lausafjárstaða sjóðsins  verið gríðarlega  góð sem er tilkomið vegna mikillar innlánsaukningar síðustu árin og eru  innlán hærri en útlán. Vegna þessa var fjárfest í ýmsum markaðsskuldabréfum  og bankabréfum  sem nú hafa orðið fyrir tjóni. Jafnframt  hafa  hlutabréf í öðrum fjármálafyrirtækjum verið færð niður.

Frá því að þetta gerðist hefur verið unnið að því að auka stofnfé í Sparisjóðnum og nú þegar hafa nokkrir aðilar samþykkt að kaupa stofnfé og með ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar  9. desember síðastliðinn, um að taka þátt í að aukningunni, hefur þeim áfanga verið  náð að uppfylla lögbundið lágmark um eiginfjárhlutfall. Allir þessir aðilar hafa samþykkt aðkomu sína að umræddri aukningu, með þeim fyrirvara að ríkið komi með eiginfjárframlag það sem um getur í neyðarlögum sem numið getur 20% af bókfærðu eigin fé Sparisjóðsins. Sótt verður um þetta framlag frá ríkinu enda hafa skapast forsendur til þess. Við það verður eiginfjárhlutfall sparisjóðsins komið í gott horf.
Í bókun bæjarráðs frá fundinum 9. desember, segir að bæjarsjóður Fjarðabyggðar geti ekki, við núverandi aðstæður og árferði, lagt fram nýtt stofnfé með beinum hætti, því sé það niðurstaðan eftir vandlega skoðun á stöðu og framtíðarmöguleikum Sparisjóðs Norðfjarðar, að yfirtaka lífeyrisskulbindingarnar með þessum hætti, enda sé bæjarsjóður með bakábyrgð á skuldbindingunum til þrautarvara. Aðkoma bæjarsjóðs nú sé ekki hugsuð sem langtímafjárbinding, heldur sem tímabundin aðstoð í erfiðu árferði. Komi til sameiningar eða sölu sparisjóðsins við aðra fjármálastofnun verði þessi ákvörðun tekin til endurskoðunar. Bæjarráð telur afar brýnt að verða við þessari beiðni um neyðaraðstoð við Sparisjóð Norðfjarðar og telur sig þannig einnig vera að tryggja áframhaldandi fyrirgreiðslu sparisjóðsins við fjölmarga einstaklinga, félagasamtök og smærri fyrirtæki í sveitarfélaginu til framtíðar. Gjörningurinn sé háður samþykki bæjarstjórnar og því skilyrði að Sparisjóði Norðfjarðar takist að selja nægt stofnfé til þess að uppfylla skilyrði Fjármálaeftirlitsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.