Fjarðabyggð styður við Sparisjóð Norðfjarðar
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. des 2008 10:19 • Uppfært 08. jan 2016 19:19
Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt þá málaleitan Sparisjóðs Norðfjarðar að sveitarfélagið komi að því að auka eigið fé sparisjóðsins. Yfirtekur Fjarðabyggð lífeyrisskuldbindingar sparisjóðsins við Lífeyrissjóð Neskaupstaðar, en bæjarstjóður ber bakábyrgð á þeim. Andvirði þeirra skuldbindinga verður síðar breytt í stofnfé í sparisjóðnum.
Heildarfjárhæð framlags Fjarðabyggðar verður um hundrað og fjörtíu milljónir króna og er reiknað með að greiddar verði mánaðarlega sexhundruð þúsund krónur til lífeyrissjóðsins.
Í tilkynningu frá Sparisjóði Norðfjarðar kemur fram að við hrun stóru viðskiptabankanna í byrjun október hafi bankinn orðið fyrir töluverðu tjóni. Það hafi leitt af sér að eiginfjárhlutfallið fór niður fyrir lögbundið lágmark sem er 8%.Frá því að þetta gerðist hefur verið unnið að því að auka stofnfé í Sparisjóðnum og nú þegar hafa nokkrir aðilar samþykkt að kaupa stofnfé og með ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar 9. desember síðastliðinn, um að taka þátt í að aukningunni, hefur þeim áfanga verið náð að uppfylla lögbundið lágmark um eiginfjárhlutfall. Allir þessir aðilar hafa samþykkt aðkomu sína að umræddri aukningu, með þeim fyrirvara að ríkið komi með eiginfjárframlag það sem um getur í neyðarlögum sem numið getur 20% af bókfærðu eigin fé Sparisjóðsins. Sótt verður um þetta framlag frá ríkinu enda hafa skapast forsendur til þess. Við það verður eiginfjárhlutfall sparisjóðsins komið í gott horf.