Fjarðabyggð skorar á stjórnvöld að standa vörð um Sparisjóðina

Fundur bæjarráðs Fjarðabyggðar í gærkvöldi beindist meðal annars að því ástandi sem nú er uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar, og umheimsins.

Á fundinum var samþykkt samhljóða ályktun þar sem bæjarráð Fjarðabyggðar skorar á ríkisstjórn og Alþingi að standa vörð um sparisjóðina í landinu. Í ályktun segir að sparisjóðirnir hafi þjónað íbúum í dreifbýlinu með nærþjónustu í fjármálum í áratugi og oftan en ekki hafi þeir verið burðarásar byggðarlaganna.

Á sama fundi var einnig samþykkt ályktun vegna óvissu í efnahagsmálum. Hér er ályktunin í heild sinni:


Á L Y K T U N
vegna óvissu í efnahagsmálum
 
Almenn óvissa á fjármálamörkuðum og mikil umbrot í þjóðfélaginu hafa áhrif á fólk og fyrirtæki hvarvetna á landinu.  Þótt lánsfjárþurrð kalli á endurskoðun verkefna hjá Fjarðabyggð leggur bæjarstjórn áherslu á áframhaldandi uppbyggingu til að renna stoðum undir fjölbreytni í atvinnulífi og framboði þjónustu.  Ásýnd og umhverfi verða á forgangslistanum áfram ásamt þeirri þjónustu sem mikilvægust er fyrir vellíðan og öryggiskennd íbúa.  Sveitarfélögin veita hvert á sínu svæði þá þjónustu sem fjölskyldunum er hvað mikilvægust.  Bæjarstjórn Fjarðabyggðar stendur vörð um að íbúar fái notið grunn- og velferðarþjónustu sem til fyrirmyndar er.  Margföld reynsla er af því hversu vel Íslendingar standa saman á erfiðleikastundum.  Bæjaryfirvöld hafa kallað saman fulltrúa ýmissa hópa sem saman geta myndað öryggisnet til að stuðla að vellíðan íbúa, samkennd þeirra og samábyrgð.  Stjórn verkefnisins er af hálfu bæjarins hjá móttökufulltrúa íbúa, fræðslustjóra og félagsmálastýru. Íbúum munu fljótlega berast upplýsingar um þjónustu sem til boða stendur hvort heldur er hjá stofnunum bæjarfélagsins eða ríkisins, kirkjunni, fjármálastofnunum, frjálsum félagasamtökum eða öðrum. 
 
Öldurótið nú og lánsfjárþurrð kann að kalla á margháttaða endurskoðun hjá Íslendingum.  Atvinnulíf í Fjarðabyggð og tekjur sveitarfélagsins hvíla á traustum stoðum vel rekinna fyrirtækja einkum í sjávarútvegi og iðnaði.  Á tímum gjaldeyrisskorts getur sveitarfélagið horft til þess með stolti að framlag hvers íbúa til útflutningstekna er margfalt hærra en í nokkru öðru sveitarfélagi.  Íbúum hefur fjölgað um fimmtung á síðustu árum og tekjustofnar sveitarfélagsins eru traustir.  Sveitarfélagið hefur undanfarin ár fest fé í byggingum, s.s. grunnskólum, leikskólum og íþróttamannvirkjum og innviðum s.s. götum, veitum og hafnamannvirkjum í öllum þéttbýliskjörnunum. Lánsfjárskortur knýr nú á um endurskoðun nýrra fjárfestinga þar til framtíðarmyndin varðandi tekjur og lánsfjármögnun hefur skýrst.  Því samþykkir bæjarstjórn að fresta að svo stöddu framkvæmdum við 3. áfanga skólamiðstöðvar á Fáskrúðsfirði og nýjan leikskóla í Neskaupstað.  Miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlanir mun það lækka fjárfestingargjöld á árinu 2009 um því sem næst 300 mkr.  Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að fresta framkvæmdum hjá hafnarsjóði Fjarðabyggðar og draga þar með úr fjárfestingargjöldum hafnarinnar um 150 – 200 mkr.  Áhersla verður lögð á framgang verkefna sem unnið er að í samvinnu við ríkið s.s. snjóflóðavarnir í Neskaupstað, viðbyggingu Verkmenntaskóla Austurlands og byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Eskifirði.
 
Bæjarstjórn beinir því til allra forstöðumanna bæjarfélagsins að þeir gæti ítrasta aðhalds, og leiti allra leiða til hagræðingar og sparnaðar innan úthlutaðra fjárheimilda.  Bæjaryfirvöld munu vaka yfir þróun efnahags- og atvinnumála og bregðast við ef aðstæður kalla á frekari aðgerðir bæjarins.
 
Bæjarstjórn hvetur íbúa til að sýna samstöðu á umbrotatímum.  Við búum á góðum stað sem er því betri þeim mun betur sem bæjaryfirvöld og íbúar standa saman að áframhaldandi sókn í atvinnulífi og þjónustu við íbúa.
 
Samþykkt í bæjarstjórn með 9 atkvæðum.
 smabatar_fjardabyggd.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.