Fjallahjólafélagið Fönn stofnað í Neskaupstað
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. júl 2025 15:36 • Uppfært 07. júl 2025 15:36
Fjallahjólreiðar njóta vaxandi vinsælda á Austfjörðum sem víðar. Félagsskapur um íþróttina var stofnaður í Neskaupstað í vor fyrir tilstuðlan mikils áhugamanns um hana.
Forsprakkinn er Haraldur Mímir Baldursson sem er nýfluttur austur en hefur lengi stundað fjallahjólamennsku.
„Ég hef verið búsettur fyrir sunnan um langa hríð og einmitt verið meðlimur í svona hópum. Áhugi fólks er tvímælalaust meiri á að drífa sig út að hjóla þegar tiltekinn hópur fólks vill vera með og taka þátt.
Þetta snýst bara um að stofna samtök með formlegum hætti og í kjölfarið koma á dagskrá sem áhugasamir geta svo nýtt sér til að fjölga ferðum og auka áhugann í kjölfarið. Til dæmis er kerfið í hópunum fyrir sunnan þannig að það er tiltekinn dagur í vikunni eða dagar á mánuði þar sem ákveðið er að farið verði í ferðir saman.
Þannig vita allir í hópnum með fyrirvara hvenær skal fara og hvert og það er nánast bókað að einhver fjöldi fólks mætir á þeim tímum. Þetta er í grunninn eins og í öðru, að meiri félagsskapur hefur áhrif hvað svo sem áhugamálið er. Því fleiri, því betra,“ segir hann.
Fyrsta verk hópsins var að finna nafn og varð Fönn fyrir valinu. Haraldur segir að starfsemin verði ekki endilega bundin við fjallahjólreiðar, götuhjólreiðar eru einnig inn í myndinni sem og unglingastarf. Þá ítrekar Haraldur að þótt Norðfjörður sé heimavöllur félagsins séu allir Austfirðingar velkomnir.
„Hugmyndin er að reyna að ná til fleiri áhugasamra en bara fólks í Neskaupstað, enda er fjallahjólafólk í öllum kjörnum hér í kring. Vonandi leiðir það til þess að fleiri sláist í hópinn og úr verði skemmtilegur félagsskapur til framtíðar.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.