Skip to main content

Fimmtíu ár á farfuglaheimilinu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. ágú 2025 17:31Uppfært 20. ágú 2025 17:36

Þóra B. Guðmundsdóttir fagnaði því í sumar að 50 ár eru síðan hún hóf að reka farfuglaheimilið Hafölduna á Seyðisfirði. Hún hefur síðan bætt við sig farfuglaheimili í Gamla spítalanum og hóteli á Indlandi. Hún segir að sér hafi lengi verið í blóð borið að taka á móti gestum.


Þóra opnaði sumarið 1975 Hafölduna í gömlum síldarbragga í norðanverðum Seyðisfirði. Hann dregur heiti sitt af samnefndu síldarsöltunarfyrirtæki sem var með bryggju þarna og svo verbúð fyrir starfsfólk. „Ólafur Óskarsson og hans menn byggðu þennan bragga árið 1966. Síðan hvarf síldin árið 1968 og þá var bara neglt fyrir alla glugga.“

Tækifæri með Norrænu


Þóra kynntist farfuglahreyfingunni á námsárum í Reykjavík og rak heimili þar ásamt vinkonu sinni. Fyrir sumarið 1975 kom hún austur, 22 ára kasólétt og fór að hugsa um hvað hún gæti unnið við. Hún þekkti til farfuglahreyfingarinnar og sá tækifæri í því að ferja Smyril-Line væri að hefja siglingar til Seyðisfjarðar. Eftir bíltúr um bæinn með foreldrum sínum fór hún til bæjarstjórans, Jónasar Hallgrímssonar, og nefndi hugmyndina að umbreytingu Haföldunnar en bærinn átti þá orðið húsið.

Þóra segir Jónas hafa sett það skilyrði að hún tæki yfir rekstur hótels bæjarins, Hótels Snæfells. Hún gerði það en réðist samhliða í endurbætur Haföldunnar með stuðningi fjölskyldu og vina. Hún eignaðist síðan húsið því bærinn vildi ekki halda því.

Rússneskur birkikrossviður


Þótt húsið þyrfti endurbætur var margt úr því sem mátti nota. „Óli Óskarsson seldi síld til Rússlands og fékk borgað í rússneskum birkikrossviði. Þess vegna er húsið allt fóðrað að innan með sellulósa lakki. Þetta gulnar og verður fegurra með árunum. Þess vegna er húsið svona endingargott og fallegt.“

Farfuglahreyfingin er einkum ætluð ungum ferðalöngum sem ferðast ódýrt en farfuglaheimili þurfa að uppfylla ákveðna staðla til að mega titla sig sem slík. Þóra bendir á að þróunin seinni ár hafi verið að flest herbergin séu orðin tveggja manna. Sums staðar eru herbergi með sérbaði á farfuglaheimilum og gefa þannig hótelunum lítið eftir.

„Fyrsta sumarið var ég ekki með uppbúin rúm, fólk kom með svefnpokana sína. Núna eru uppbúin rúm og handklæði á hverju rúmi. Hins vegar er eldunaraðstaða og setustofa á öllum farfuglaheimilum sem skapar meiri nálægð og samveru því þú ert að sýsla með hinum gestunum.“

Hafaldan er annað farfuglaheimilið í röðinni á Austurlandi, það elsta er á Berunesi. Þóra segist fyrstu árin líka hafa þurft að vinna í fiski til að framfleyta sér. Hún hafi síðar farið í arkitektanám til Danmerkur en komið heim á sumrin til að vinna, „heim með fyrstu ferju og út með síðustu ferð.“

Gamli spítalinn og Leynilundurinn


Farfuglaheimilið naut vinsælda og Þóra var með rekstur víðar í bænum, segist hafa verið með dýnur fyrst í skólanum og síðan á Gamla spítalanum, einu sögufrægasta húsi Seyðisfjarðar. Hann lauk sínu hlutverki sem slíkur árið 1987, en árið 2004 var Hafaldan komin með rekstur þar og keypti loks húsið árið 2013.

Til viðbótar við reksturinn á Seyðisfirði er Þóra með lítið níu herbergja hótel á Indlandi, sem heitir „Secret Garden“ eða Leynilundurinn. Því kom hún á laggirnar árið 2007. Hún er líka með aðsetur fyrir listamenn og er að byggja sér bústað skammt frá. Reksturinn fer ágætlega saman, á Indlandi er lítið um ferðamenn þegar sumar er á Seyðisfirði því þá er regntímabilið. „Það byrjar eiginlega að rigna þar klukkan tvö fyrsta júní.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.