Skip to main content

Fimm einkaþotur á ferð um Egilsstaðaflugvöll

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. maí 2025 14:42Uppfært 30. maí 2025 14:43

Annasamt var á Egilsstaðaflugvelli á miðvikudag þegar þar lentu fimm einkaþotur í flugi á milli landa. Þeim til viðbótar fór þar um farþegavél til Berlínar.


Eftir því sem næst verður komist hafa einkaflugvélarnar fimm verið í samfloti undanfarna daga. Þær virðast hafa safnast saman í Quebec í Kanada, flogið þaðan til Gæsaflóa austast á Nýfundnalandi.

Þaðan var ferðinni heitið til Kangerlussuaq á vesturströnd Grænlands og stoppað þar yfir nótt. Að morgni var flogið áfram til Egilsstaða og þangað komu vélarnar ein af annarri eftir hádegi á miðvikudag.

Þær fóru síðan áfram til Shannon á Írlandi um klukkan tíu í morgun. Austurfrétt hefur ekki upplýsingar um tilgang ferðanna. Vélarnar eru allar skráðar í Bandaríkjunum og að minnsta kosti sumar í eigu flugfélaga sem leigja út einkaþotur.

Seinni part miðvikudags flaug einnig leiguþota á vegum Kompaníferða til Berlínar. Uppistaðan í 150 farþega hópnum voru starfsmenn Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði ásamt mökum.