Skip to main content

Fékk Grímuverðlaunin í annað sinn

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. sep 2025 16:57Uppfært 23. sep 2025 16:58

Leikkonan Birna Pétursdóttir frá Egilsstöðum fékk í ár Grímuverðlaunin í annað sinn fyrir túlkun sína á Ísey í Ungfrú Ísland í Borgarleikhúsinu. Árið 2021 fékk hún verðlaunin fyrir leik í aukahlutverki í söngleiknum Benedikt Búálfur hjá Leikfélagi Akureyrar.


Þrátt fyrir að leikritið hafi fyrirfram hlotið flestar tilnefningar til Grímuverðlauna fyrir viðburðinn segir Birna það engu að síður hafa komið verulega á óvart að heyra nafn sitt nefnt sem leikkonu ársins.

„Það gerði það sannarlega þrátt fyrir allt. En ég er rosalega stolt af þessari sýningu og að hafa verið þátttakandi í þessu magnaða verki með Grétu Kristínu leikstjóra og frábæru fólki í öllum hlutverkum. Þannig að allar þessar tilnefningar komu vel og skemmtilega á óvart. Ég var ekki einu sinni klár með ræðu í mínu tilviki.“

Verðlaunin komu á óvart


Verkið byggist á samnefndri bók Auðar Övu Ólafsdóttur og gerist í Reykjavík árið 1963. Þar segir frá sveitastelpunni Heklu sem á þann draum heitastan að verða rithöfundur og flytur til Reykjavíkur, ásamt tveimur vinum sínum, Ísey og Jón John, til að láta hann rætast. Ísey, sem leikin var af Birnu, verður húsfreyja í Norðurmýrinni, en er líkt og Hekla sjálf haldin mikilli skrifþörf. Því leynir hún fyrir manni sínum.

„Í grunninn,“ útskýrir Birna, „snýst verkið um þrjú fórnarlömb þess tíma þegar hvorki kvenfólk né samkynhneigðir gátu í raun gert það sem draumar þeirra snérust um. Konur sérstaklega höfðu ekki sömu tækifærin og það hvorki varðandi menntun né störf.“

Minntist minnstu bræðra


Þó verðlaun Birnu hafi vissulega verið einn hápunktur Grímunnar þetta árið vakti ræða hennar ekki síður athygli. Það bæði í salnum sjálfum sem og í fjölmiðlum í kjölfarið en stór hluti ræðunnar var tilfinningaþrungið ákall um aðgerðir og viðbrögð við þeim hörmungum sem íbúa Gaza í Palestínu hafa þurft að búa við nú um langt skeið. Fór ekkert milli mála í ræðu Birnu að málið er henni mjög hugleikið.

„Mitt hjarta einfaldlega slær með þessu fólki og ég bara gat ekki orða bundist þegar ég var komin upp til að taka við verðlaununum. Ég var ekki með neitt skrifað en vissi að ég vildi ávarpa þessa miklu skömm af hálfu okkar Vesturlandabúa hvað ástandið á Gaza varðar. Ég á ekki eitt orð yfir aðgerðarleysinu og kuldanum gagnvart fólkinu þarna. Að fólk eins og við, sem búum við mikla lukku og forréttindi, getum ekki talað máli þeirra sem búa við margfalt verri hörmungaraðstæður er stór skömm að mínu mati.“

Langar mun oftar austur


Foreldrar og margir vinir Birnu búa enn á Austurlandi og aðspurð hvort hún komi ekki reglulega í heimsókn viðurkennir hún fúslega að vilja koma mun oftar.

„Ef flugfargjöld væru ekki svona fáránlega dýr þá myndi ég fara austur hundrað sinnum oftar en ég geri. Kostnaðurinn er einfaldlega allt of mikill í fluginu og það eiginlega hvort sem er fyrir einstakling eða fjölskylduna. Svo er það ekki ýkja mikil lausn að fara akandi því það kostar sitt líka og þá ekki síst í tíma. Ég vildi óska þess að ég gæti verið meira fyrir austan þar sem ég á marga að.“



Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.