Fara aftur til fortíðar til að færa hana fram til framtíðar
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. júl 2025 15:58 • Uppfært 25. júl 2025 15:59
„Fortíð framtíðarinnar“ er yfirskrift lokasýningar skapandi sumarstarfa í Fjarðabyggð sem haldin verður í Þórsmörk í Neskaupstað um helgina. Þar sækja ungmennin í arf fortíðar og færa hann í búning nútímans.
„Þetta er búið að vera gott sumar en ég er alltaf jafn hissa á hvað það líður hratt og að komið sé að lokasýningunni. En svona er íslenska sumarið,“ segir Marc Alexander sem þriðja árið í röð er verkefnastjóri skapandi sumarstarfa.
Í ár hafa sex ungir listamenn, þau Emelía Ólöf Aronsdóttir, Garðar Antonio Jimenez, Jakob Kristjánsson, Hrefna Ágústa Marinósdóttir, María Rós Steindórsdóttir og Þór Theodórsson tekið þátt í verkefninu.
„Skapandi sumarstörf eru frábært verkefni sem gefur þessu unga fólki tækifæri á að einbeita sér að listsköpun. Við tökum alltaf þátt í hátíðum og viðburðum, í ár vorum við með á sólstöðuhátíð á Seyðisfirði og 17. júní á Breiðdalsvík. Síðan fáum við ólíka listamenn til okkar sem hreyfa við þeim. Ég læri alltaf eitthvað á þessu sjálfur.“
Gamlar myndir og þjóðsögur veita innblásturinn
Listafólkið vinnur síðan að verkum fyrir lokasýninguna. Marc segir að þótt þetta séu einstaklingsverkefni sé alltaf þráður sem tengi þau saman. „Undanfarin tvö ár var mikið sótt í náttúruna en nú fara þau í fortíðina til að færa hana fram í framtíðina.
Hrefna Ágústa notar ljósmyndir langafa síns af Norðfirði. Myndirnar eru teknar um 1930. Hún myndaði sömu staði og splæsir þeim saman við eldri myndirnar til að sýna breytingarnar. Síðan notar hún gervigreind til að búa til hreyfingu í gömlu myndirnar og úr því verður lítið vídeóverk.
María sækir í þjóðsögur úr Fjarðabyggð og færir þær inn í nútímann í vatnslitaverkum. Ein myndin sýnir til dæmis hafmeyju í sundlauginni á Eskifirði,“ segir Marc.
Sýningin opnar klukkan 17 í dag í Þórsmörk í Neskaupstað. Hún er síðan opin laugardag og sunnudag frá klukkan 12-16.
Hópurinn í Þórsmörk þar sem hann sýnir um helgina. Mynd: Menningarstofa Fjarðabyggðar