Skip to main content

Fagna 20 ára afmæli Bræðslunnar með tónleikum Emilíönu Torrini

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. júl 2025 15:32Uppfært 26. júl 2025 12:02

Tuttugu ára afmæli tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar á Borgarfirði verður fagnað í kvöld þegar Emilíana Torrini kemur þar fram á sérstökum aukatónleikum, en hún var aðalnúmer fyrstu Bræðslunnar. Óvenju fjölmennt hefur verið á Borgarfirði í vikunni.


„Það er uppselt, æðislegt veður, allt tilbúið og eintóm gleði og hamingja,“ segir Magni Ásgeirsson, einn af stjórnendum Bræðslunnar.

„Það hefur verið stöðugur straumur fólks alla vikuna og andinn er góður í fólki. Það kom fleira fólk fyrr en oft áður. Fyrsti viðburðurinn var pöbbkviss í Fjarðaborg á þriðjudagskvöld sem átti að vera afslappað en þar var stappað. Tjaldsvæðið var nærri orðið fullt á miðvikudag,“ bætir hann við.

Endurgera fyrstu tónleikana


Austurfrétt hefur spurnir af því að í viðbót við gott veður á Austurlandi þá hafi íbúar annarra landssvæða flúið úr móðu frá eldgosinu við Grindavík. „Okkar gosmóða er hátt uppi, hvít og hnoðrótt,“ svarar Magni.

Eiginlegir afmælistónleikar Bræðslunnar verða í kvöld þegar Emilíana Torrini kemur fram ásamt hljómsveit en hún hefur verið að fylgja eftir plötunni Miss Flower. „Við verðum með tónleika í fyrsta og eina skiptið á föstudegi til að fagna afmælinu. Þetta verður hálfgerð endurgerð af fyrstu tónleikunum.“

Vinir halda uppi veislunni


Bræðslutónleikarnir sjálfir hefjast klukkan 19:45 á morgun þegar norðfirska tónlistarkonan María Bóel Guðmundsdóttir stígur á svið. Á eftir henni fylgja Elín Hall, Herra Hnetusmjör og síðan Mugison, Ragga Gísla, KK, og Pálmi Gunnars.

Sama hljómsveit, skipuð trommaranum Arnari Frey Gíslasyni, bassaleikaranum Guðna Finnssyni, gítarleikaranum Ómari Guðjónssyni og hljómborðsleikaranum Tómasi Jónssyni spilar undir fyrir fjóra síðastnefndu söngvarna. „Af því það er afmæli þá fengum við marga vini okkar og þess vegna er það þessi hljómsveit.“

Góð aðsókn er á fleiri viðburði Bræðsluhelgarinnar. Á nokkrum klukkutímum seldist upp á tónleika Ljótu hálfvitana í kvöld. Stórtónleikar Kaleo í Vaglaskógi um helgina virðast engin áhrif hafa á Bræðsluna.

„Það var orðið uppselt á Bræðsluna þegar nokkrum datt í hug að halda tónleika í Vaglaskógi. Áður voru Mærudagar og Franskir dagar á sömu helgi og Bræðslan. Báðir viðburðir hafa verið færðir. Við fögnum því að nóg sé um að vera.“

Jónas Sig á sviði ásamt Ómari Guðjóns og Guðna Finns. Þeir koma allir fram um helgina. Mynd: GG