Skip to main content

Færa íslensk þjóðlög í indverskan búning

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. júl 2025 11:42Uppfært 02. júl 2025 11:42

Norðfirðingurinn Kormákur Valdimarsson mun í næstu viku ferðast um Austfirði ásamt vini sínum Arvid Brattwall með tónleika þar sem þeir bræða saman indverskar og íslenskar tónlistarhefðir. Indversku hefðirnar tryggja að engir tveir tónleikar verða eins. Mjóifjörður verður einn af viðkomustöðum þeirra.


„Ég legg líf mitt í hendur hans. Mig hefur lengi langað til Íslands því ég þekkti fólk sem hafði farið þangað og dásamaði landið. Síðan kynntumst við Kormákur fyrsta daginn í skólanum og hann kom þessu í kring,“ segir Arvid.

„Ég kom með þá hugmynd að fara í tónleikaferð um Austfirði því ég þekki fólkið hér og vissi hversu gaman er að spila fyrir það,“ segir Kormákur.

Báðir búa um þessar mundir í Svíþjóð og eru í námi við listadeild framhaldsskóla í Smálöndunum. Báðir eiga ættir annað. Kormákur er að hluta til alinn upp í Neskaupstað og kom meðal annars fram í Tónspili í vetur með efnisskrá sem hann hafði að hluta unnið í skapandi sumarstörfum í Fjarðabyggð. Arvid er hins vegar alinn upp í sænska minnihlutanum í Finnlandi.

Indversk tónlist byggist á stemmingu


Saman kalla þeir sig Indoclandic með vísan í tónlist þeirra sem er bræðingur íslenskrar og indverskrar tónlistar. Arvid hefur kannað indverskar hefðir, nýtur leiðsagnar gúrús þar sem hann heimsækir þegar hann getur. Hann spilar á hið sérstaka hljóðfæri sítar.

„Við erum með fjögur lög á efniskránni, tvo indversk og tvö íslensk. Íslensku þjóðlögin eru í löngum útgáfum. Í indverskri tónlist er forspilið langt og byggist upp með endurtekinni laglínu til að byggja upp stemmingu. Það er mikið lagt upp úr stemmingunni og þú þarft að skynja hvaða tónar henta hverju sinni,“ segir Arvid.

„Þetta þýðir að engir tveir tónleikar verða eins, sem ég held að fólki þyki skemmtilegt ef það kemur á fleiri en eina tónleika. Þótt indverska tónlistin byggi á laglínum þá getur hún breyst. Við höfum reynt að tímamæla verkin á æfingum og þau hafa orðið mislöng,“ segir Kormákur.

Kormákur leikur á gítar sem aftur býr til nýjar víddir í tónlistinni. „Mér fannst það erfitt að aðlagast gítarnum. Hann sér um taktinn en vanalega er það tabla (indversk tromma) sem spilar enga laglínu. Þá ber ég einn ábyrgð á að skapa stemminguna. Gítarinn getur hins vegar búið til fjölbreytta tóna sem að mörgu leyti hentar vel. Með því færist hins vegar sítarinn í bakgrunn, sem er krefjandi því hann er gerður til að vera í forgrunni,“ útskýrir Arvid.

Hlakka til að spila á Mjóafirði


Félagarnir verða á ferðinni á kvöldin virka daga í næstu viku. Byrja á Tehúsinu á Egilsstöðum á mánudag en spila svo í Mjóafjarðarkirkju, Bragganum á Reyðarfirði, gömlu kirkjunni/Kirkjubæ á Stöðvarfirði og loks Tónspili í Neskaupstað.

Kormákur segir spennandi að spila bæði á hefðbundnum tónleikastöðum en líka stöðum þar sem sjaldnar eru tónleikar. „Ég fór á ljóðaviðburð á Mjóafirði í fyrra og tónleika þar fyrir tveimur árum. Ég hafði ekki komið áður til Mjóafjarðar en dreymt um það og hreifst af fegurð fjarðarins og þorpsins. Þess vegna spurði ég Menningarstofu Fjarðabyggðar hvort ég gæti komið þar fram í ár og það gekk eftir. Ég veit að það er bíltúr að fara þangað en ég vona að fólk komi,“ segir Kormákur að lokum.