Skip to main content

Endurvekja Hernámsdaginn á Stríðsárasafninu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. júl 2025 11:08Uppfært 02. júl 2025 11:14

Til stendur að endurvekja Hernámsdaginn svokallaða á Stríðsárasafninu á Reyðarfirði á laugardaginn kemur og er nokkuð veigamikil dagskrá af því tilefni. Þar verða meðal annars kynntar metnaðarfullar uppbyggingarhugmyndir Fjarðabyggðar varðandi þetta merka safn.

Þrjú ár eru liðin síðan að Hernámsdagurinn fór fram síðast en tilefnið nú ærið því framundan eru veigamiklar breytingar á safninu og svæðinu í kring í því skyni að gera því enn hærra undir höfði en verið hefur.

Um er að ræða tveggja stunda dagskrá sem hefst með göngu og sögustund Þórodds Helgasonar að safninu frá Molanum klukkan 14. Bæjarstjórinn, Jóna Árný Þórðardóttir, tekur svo mót gestum við safnið og heldur tölu auk þess sem boðið verður upp á veitingar fyrir mannskapinn. Myndbandslistaverkið Hernám verður frumsýnt og erindi haldið um þá Íslendinga sem létust vegna veru hersins hér á landi á sínum tíma.

Frítt er inn á safnið þennan tíma og vonast Jón Björn Hákonarson, formaður stjórnar Menningarstofu Fjarðabyggðar, til þess að sem flestir taki tíma frá af þessu tilefni.

„Okkur langar að gera þessum degi og þar með merkri sögu staðarins hærra undir höfði og þetta er liður í því. Þarna verður jafnframt kynning á þeirri undirbúningi sem unnin hefur verið vegna endurbóta á safninu. Það verk gengur vel, nú er verið að skoða hönnunarhliðina og stefnan er sett á að geta hafið framkvæmdir strax með haustinu. Þær hugmyndir sem eru uppi eru mjög fínar og til þess fallnar að ná betur utan um safnkostinn. Við erum einmitt um þessar mundir í samtali við arkitekta vegna hönnunarinnar og ætlum okkur að reyna að byrja í september eða október við lok sumarsýningarinnar. Ég geri ráð fyrir að það verði byrjað á móttökuhúsinu sem í kjölfarið tengist svo við braggann. Allt verður þetta kynnt þeim gestum sem þátt taka í deginum auk þess sem frítt verður inn.“