Endurbótum í Kjarvalshvammi fagnað um helgina
Gleði og fögnuður vegna margra ára farsælli endurbótavinnu við sumarhús,bátaskýli og umhverfi Kjarvalslunds í Hjaltastaðaþinghá var ástæða þess að rúmlega 20 manns létu þar sjá sig á laugardaginn var þrátt fyrir dimmu og drumbung í veðrinu.
Sumarhús og bátaskýli Kjarvals, í lundi einum í landi Ketilsstaða við Borgarfjarðarveg þar sem hann eyddi góðum tíma um tuttugu ára skeið að mála sum sín þekktustu verk, hafa fengið yfirhalningu síðustu árin. Þar bæði um endurbætur að ræða á húsakostinum en ekki síður til að gera aðgengi ferðafólks betra með betra og stærra bílastæði auk betri upplýsingaskilta sem gefa vel til kynna hvers vegna staðurinn er merkilegur.
Ein fjögurra sem tölu héldu af þessu tilefni var sveitarstjóri Múlaþings, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sem sagði afar gleðilegt hve margir hefðu séð ástæðu til að mæta á staðinn þrátt fyrir heldur dapurt veðurfar. Sagði hún seint hægt að gera of mikið úr mikilvægi staðarins.
„Það var árið 1993 sem afkomendur Kjarvals gáfu sem þá var Hjaltastaðahreppi, húsin hérna í hvamminum og bátinn sem bátaskýlið hýsir alla jafna. Það kemur fram í afsalinu að þau töldu að þessar eignir væru best varðveittar í höndum heimafólks; og nú vitna ég í afsalið: „enda hefði það fólk að líkndum sem mestan metnað af því að varðveita eignir afa svo nærri hans uppvaxtarstað. Það svo árið 1995 sem Hjaltastaðahreppur samdi við Minjasafn Austurlands um að það tæki að sér umsjón með húsunum hér sem ég tel hafa verið gæfuspor því safnið hefur búið vel að staðnum um árabil.“
Geymir mikla sögu
Dyrfjöllin, Selfljótið og náttúran allt í kring um hvamminn varð Kjarval kveikjan að mörgum þekktum verkum gegnum tíðina og mikilvægt að halda tengslum hans við Hjaltastaðaþinghánna hátt á lofti að mati sveitarstjórans.
„Sumarhús Kjarvals hér í hvamminum lætur kannski ekki mikið yfir sér en geymir mikla sögu. Hér bjó Kjarval sér athvarf og hingað kom hann árum saman til að dvelja og sinna list sinni og umhverfið varð honum innblástur að mörgum verkum. Þessi látlausa aðstaða segir líka mikið um listamanninn sjálfan, persónuleika hans, gildismat, forgangsröðun og lífsstíl. Það ekki víst að margir aðrir hefðu látið sér þessa aðstöðu nægja en hér naut Kjarval þess að dvelja. Hér er enn til fólk sem man eftir Kjarval og veru hans hér í hvamminum en nú þegar þeim fer fækkandi er það sífellt mikilvægara að halda sögunni um hann á lofti. Segja frá því hvernig hann tengist staðnum og því sem hann gerði hér. Jóhannes Kjarval er einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar. Verk hans mikils metin og reglulega settar upp sýningar þar sem fundnir eru nýir fletir á sköpun hans. En það er ekki víst að gestir listasafna landsins geri sér grein fyrir tengslum listamannsins við þetta svæði. Hús Kjarvals í hvamminum eru minnisvarði um tengsl hans við Múlaþing og ást hans á svæðinu. Án þeirra og þeirrar uppbyggingar sem hér hefur átt sér stað væru tengsl hans við svæðið ekki jafn augljós.“
Rúmlega 20 gestir komu saman í Kjarvalshvammi um helgina til að samfagna stórum áfanga í vernd og endurbótum á sumarhúsi og bátaskýli eins merkasta listamanns þjóðarinnar. Mynd AE