Skip to main content

Eitt og annað til afþreyingar yfir sumarsólstöðuhelgina

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. jún 2025 10:42Uppfært 20. jún 2025 11:06

Það vel til marks um að allt er að vakna til lífs á Austurlandi að þrátt fyrir hátíðarhöld víða fyrr í vikunni vegna bæði Þjóðhátíðardagsins og Kvenréttindadagsins er engu að síður fjölmargt í boði um helgina fyrir þá sem vilja komast út úr húsi.

Stærstu viðburðirnir eru tveir að þessu sinni og báðir fara fram á morgun laugardag.

Annars vegar er þar um að ræða Sumarsólstöðuhátíð Skaftfells á Seyðisfirði sem er heiti yfir líflega götuhátíð með ýmsum gjörningum og úrvali afþreyingar fyrir unga sem aldna. Hefst fjörið síðdegis klukkan 17 og endar með tónlist og dansi á götum úti um klukkan 22. Viðamikil sýning tileinkuð Jóhannesi Kjarval opnaði fyrr í vikunni í Skaftfelli svona ef hátíðin utandyra dugar ekki til fyrir listunnendur.

Sama daginn verður blásið í lúðra vegna Skógardagsins mikla í Mörkinni í Hallormsstaðaskógi en sá viðburður er fyrir löngu orðinn landsþekktur og trekkir að marga. Dagskráin hefst um hádegisbil með Skógarhöggskeppninni og í kjölfar er vegleg dagskrá langt fram eftir deginum. Allt endar svo með risagrilli og gómsætum veitingum sem fólki gefst færi á að smakka.

Út og suður

Séu gönguferðir og útivist í uppáhaldi er þetta aldeilis fín helgi framundan. Í Múlaþingi verður Ferðafélag Fljótsdalshéraðs með Sólstöðugöngu sína í Stapavík við Héraðsflóann. Brottför frá skrifstofu ferðafélagsins klukkan 20 í kvöld og ekið að bænum Unaósi þaðan sem tíu kílómetra gangan er nokkuð létt á fótinn.

Þá er það á morgun sem opinber gönguvika Fjarðabyggðar hefst með sérstakri göngu- og bátsferð á Barðsneshorn og í kjölfar þeirrar ferðar haldin kvöldvaka í Sjóhúsi Randulffs á Eskifirði. Á sunnudeginum er í boði það sem kallað hefur verið Helförin sem er um 20 kílómetra túr milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Skemmri göngutúr er einnig í boði klukkan 16 frá Íslenska stríðsárasafninu þar sem einnig fer fram kvöldvaka að göngu lokinni.

Ljúfir tónar

Vitaskuld verður hægt að njóta tónlistar á hinum ýmsu börum og samkomustöðum eins og venjulega. Tónlistarmaðurinn Ívar Klausen ætlar að tralla og tjútta fyrir lýðinn og það bæði í Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld klukkan 20.30 og endurtekur leikinn annað kvöld í Tónspili í Neskaupstað á sama tíma. Honum til aðstoðar að gleðja gesti verður Hjálmar Carl.

Á Tehúsinu á laugardagskvöld mun hópurinn Krauka spila fyrir gesti en það band spilar eingöngu á hljóðfæri frá Víkingatímanum og vakið töluverða athygli víða um heim. Hægt verður að skoða hljóðfærin sjálf að tónleikunum loknum en þeir hefjast 20.30

Mynd frá Sumarsólstöðuhátíð Skaftfells á síðasta ári en hátíðin verður haldin í þriðja sinn nú um helgina. Mynd Skaftfell