Skip to main content

Eitt að líða vel í fjöllunum – annað að vinna í þeim

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. sep 2025 17:58Uppfært 26. sep 2025 18:01

Í 650 metra hæð yfir sjávarmáli við Drangagil, beint upp af Neskaupstað, eru vinnubúðir. Þær eru bækistöðvar starfsmanna Köfunarþjónustunnar sem eru að gera við snjóflóðavarnir þar og undirbúa uppsetningu nýrra sem settar verða upp á næstu árum.


Upp í Drangaskarð liggur göngustígur, sem liggur svo að segja beint upp hlíðina með um 500 metra hækkun. Þyngstu hlutirnir og vistir voru fluttar upp með þyrlu en hún er aðeins stöku sinnum á staðnum, þegar á þarf að halda og veður er.

Litháískir starfsmenn DTV verks, undirverktaka Köfunarþjónustunnar, hafa í sumar farið þennan stíg reglulega. Þeir koma niður ef þarf eða fyrirséð að ekki viðri til vinnunnar. Þess utan dvelja þeir í búðunum.

Að finna menn til að finna í fjöllunum


Í vinnuflokknum voru alls 12 manns. Í búðunum sjálfum voru alltaf tveir á vakt og sjá þar annars vegar um húsverk, hins vegar um að halda vélunum sem þar eru eins og loftpressum og dísilrafstöðvum gangandi. Ef þær stoppa þá stöðvast vinnan í gilinu. Þess vegna er tvennt af öllu.

Í liðinu er mikil reynsla. Þrír þeirra, meðal annars leiðtogarnir Donatas og Tomas, komu að uppsetningu stálgirðinga í Tröllagili á árunum 2010-2012. Síðan hafa þeir farið víða um land, meðal annars á Patreksfjörð, Flateyri og í fyrra til Siglufjarðar. Donatas segir frá því að hann hafi líka veitt ráðgjöf varðandi hrunvarnir á Kárahnjúkum og meira að segja komið til Seyðisfjarðar strax eftir skriðurnar í desember 2020.

Flestir starfsmennirnir koma af afmörkuðu svæði í Litháen. Þeir útskýra að fyrirtækið sé vel þekkt og menn viti að hverju þeir gangi. Þeir þurfa líka að geta treyst á starfsmennina.

„Það er allt annað að vinna uppi á einhverjum byggingum heldur en að vera alltaf utan í fjallshlíð. Þér getur liðið vel í fjöllunum, en það er annað að vinna í þeim. Þess vegna er ekki erfitt að finna menn sem vilja vinna hér, heldur þá sem endast í þessu. Það eru miklar fjarvistir frá vinum og fjölskyldu, en síðan leggst hæðin og veðrið misjafnlega í fólk,“ segir Tomas.

Íslenska veðrið kemur sífellt á óvart


Tvímenningunum er tíðrætt um veðrið í samtali okkar. „Það veltur allt á því,“ segja þeir einu sinni. „Veðrið kemur alltaf á óvart. Á Íslandi geturðu fengið fjórar árstíðir á einum degi,“ bæta þeir við og loks kemur: „Veðrið er versti óvinurinn.“

Veðrið hafði áhrif strax. Hópurinn kom til landsins um miðjan maí með búnaðinn og hófst handa við undirbúning. Sex vöruflutningabílar fluttu allt austur snemma í júní. Þá gerði hret og allt var stopp. „Við komum daginn eftir að veðrið breyttist. Við þurftum að bíða með hópinn niðri í bæ í á þriðju viku. Það er dýrt, allir fá borgað fyrir átta tíma á dag, hvort sem þeir vinna eða ekki,“ segja þeir.

Meginástæðan var að mest allan búnaðinn þurfti að flytja með þyrlu upp í fjallið og í þokutíðinni fyrri hluta júní var einfaldlega ófært. „Við þurfum sama búnað hvort sem við borum eina holu eða 1.000 holur.“

Þyrlan kemur svo á um tveggja vikna fresti til að flytja vistir og búnað. „Þetta er mikið þokusvæði og þess vegna geta verið vandræði með þyrluna,“ bætir Donatas við.

Veðurspár gagnslausar


Vegna þess alls dreifist verkið á þrjú ár. Þeir hafa samanburð við Noreg, segjast geta unnið þar nánast allt árið, veðrið sé stöðugra þar.

Ef veðrið er vont í fjallinu þá dugir stundum að flytja sig aðeins til, vinna að öðru þann daginn. Nokkrir metrar skilja á milli logns og storms. Það vinnst líka hægar þegar blautt er og kalt. „Þá reynir meira á hausinn,“ segir Tomas.

Þeir útskýra líka að lítið þýði að horfa á veðurspár, veðrið uppi í fjalli sé allt annað en niðri í bæ. Búðirnar eru bundnar niður til að fjúka ekki af stað í hvassviðri.

Verklok árið 2027


Í Drangagili eru fyrir snjóflóðavarnir sem voru settar upp árið 2001, net sem eiga að hindra að flóð fari af stað. Starfsmenn Köfunarþjónustunnar könnuðu ástand þeirra í sumar og gerðu við. Þeir undirbjuggu líka nýjar varnir, stálgirðingar sem settar verða upp á næstu tveimur árum. Þeir bora í bergið og steypa teina niður í það, sem síðan eru álagsprófaðir.

Donatas segir stálgirðingarnar vera betri en netin, þær stoppi allt: grjóthrun, aurskriður og snjóflóð. Netin séu ekki jafn öflug. „Þessar stálgirðingar gera jörðina stöðugri.“ Hann segir tæknina hafa sannað sig, í snjóflóðahrinunni árið 2023 féll snjóflóð úr Drangagili utan varnanna. Þess vegna á núna að bæta við þær, um það bil tvöfalda þær.

Stálgirðingarnar eru settar saman á láglendi og síðan flogið með þær upp. Þær eru þungar og mikla nákvæmni þarf til gerð við undirstaðnanna, á hverjum punkti má ekki skeika nema einum sentímetra.

Donatas bætir við að alltaf sé að verða meiri þörf á vörnum um allan heim. „Þetta gerist með hlýnun jarðar, það aukast bæði snjóflóð og aurskriður.“

Góð samskipti við Norðfirðinga


Ofan úr Drangagili er magnað útsýni yfir Norðfjörð. Litháarnir hafa fylgst með bæjarlífinu, til dæmis hvölunum sem synda inn fjörðinn.

Samskiptin við heimamenn segja þeir vera góð. „Þeir eru mjög velviljaðir og vilja allt fyrir okkur gera. Það biluðu tæki hjá okkur um daginn og þá komu vélvirkjar úr bænum til okkar, með búnaðinn sem þurfti á bakinu.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

[widgetkit id="380" name="20250724: Snjóflóðavarnir í Drangagili"]