Einhver viðamesta leiksýning sem sett hefur verið upp í Egilsbúð frumsýnd á föstudag
Það eru mjög víða mörg og stór fiðrildi í maga þeirra rúmlega 40 einstaklinga sem unnið hafa að því vikum saman að setja á svið söngleikinn Heathers en líkast til hefur jafn viðamikil leiksýning sjaldan verið sett upp í Egilsbúð í Neskaupstað.
Íbúafjöldi í Neskaupstað telur rúmlega 1500 manns meðan fjöldi þeirra sem að leiksýningunni Heathers telur rúmlega 40 manns sem gera rétt tæplega 3% af íbúafjöldanum í heild. Þar leggjast á eitt Leikfélag Norðfjarðar annars vegar og Listaakademía Verkmenntaskóla Austurlands hins vegar. Verkinu er lýst í kynningu sem „krefjandi, brútal, drepfyndnu og svo sáru að það nístir inn að beini.“
Að sögn eins forsprakka verkefnisins og eins leikaranna, Margréti Perlu Kolku Hlöðvarsdóttur, hefur lítið annað komist að hjá þeim er að þessu koma undanfarnar vikur og æði mikið gengið á. Hún segir verkið eiga fullt erindi þó það sé byggt á kvikmynd sem fjallar um lífið í tilteknum menntaskóla fyrir rúmum 30 árum síðan.
„Þetta er kolsvört kómedía í grunninn en jafnframt söngleikur sem tekur á hinum ýmsu mikilvægu málum sem fram fóru innan veggja menntaskóla kringum 1990. Áhorfendur settir í spor unglinga þess tíma en ég vil taka fram að verkið er aðeins ætlað unglingum og fullorðnu fólki því það gerast hlutir sem yngra fólk ætti ekki að vitna. Allt er þetta þó gert með kómískum hætti.“
Spennan í aðstandendum hefur magnast mikið síðustu sólarhringa að sögn Margrétar Perlu en fyrir utan að halda utan um allt frá A til Ö leikur dóttir hennar stóra rullu í leikritinu. Alls eru 14 leikarar sem taka þátt fyrir utan hina 30 sem sjá um allt hitt kringum slíka sýningu en meðfylgjandi aðsenda mynd sýnir leikmyndina og ljósadýrðina nú þegar aðeins tveir dagar eru til frumsýningar. Alls eru sjö sýningar skipulagðar á Heathers.
„Það verið töluvert flókið að setja þetta upp og koma öllu saman en leikstjórinn okkar, Stefán Benedikt Vilhelmsson, fundið lausnir á þessu öllu með góðri hjálp og það hafa virkilega margir hjálpað okkur að gera þetta að veruleika. Við höfum haft okkar eigin danshöfund og allir fengið söngþjálfun og fjöldi annarra komið að til að hjálpa. Þetta er rosalega spennandi og þó ég ætli ekki að fullyrða um það þá held ég að þetta hljóti að vera ein viðamesta sýningin sem sett hefur verið upp hér í bænum. Ég vona að sem flestir mæti og njóti góðrar sýningar.“
Panta má miða á netfanginu
Hér að neðan má líta brot úr kvikmynd þeirri sem leikritið byggir upphaflega á en kvikmyndin var þó ekki í söngleikjastíl eins og síðar hefur notið vinsælda á fjölum leikhúsa.