Einfaldara að skrifa handrit sem gerist á fyrri tímum en að kvikmynda það
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. apr 2025 16:44 • Uppfært 01. apr 2025 16:45
Soffía Mjöll Sæmundsdóttir Thamdrup leggur nú lokahönd á sína fyrstu alvöru stuttmynd, Frávillingur, sem tekin var upp á Fljótsdalshéraði í fyrra. Mikil vinna er á bakvið gerð myndarinnar sem segir sögu ungrar konu í Fljótsdal seint á 19. öld.
Frávillingur er mynd um Snædísi, unga konu um tvítugt, sem elst upp í Fljótsdal og er ákveðin í að sanna sig með því að leita uppi kindur sem enn vantar af fjalli eftir göngur. Snædís býðst til að fylgja nágranna sínum, Kjartani í slíka leit. Hún sannfærir föður sinn um að leyfa henni að fara, en ástin fer óvænt að móta örlög hennar.
Soffía, sem er 23ja ára og undirbýr að sækja um í Danska kvikmyndaskólanum, fannst sagan endurspegla sína sögu. Hún er alin upp á Gíslastöðum á Völlum, þar sem búið er með hesta og kýr. Soffía hjálpaði síðan líka til á hverju hausti í göngum. Íslenska landslagið, sem er bakgrunnur í sögum bæði Soffíu og Snædísar, eykur tilfinningaleg áhrif myndarinnar. Það er heillandi í sjálfu sér og bætir við nýrri og áhugaverðri vídd á söguna.
„Ég ólst sjálf upp á Austurlandi og mér fannst áhugavert að búa til persónu sem vildi það sama og ég vildi og gerði svipað og ég gerði, á sama stað og ég ólst upp, en án þeirra forréttinda sem ég hef í dag. Þess vegna ákvað ég að taka upp á Austurlandi – það er auðvitað líka fallegt,“ segir Soffía.
Stuðningur að austan skipti máli
Að fóta sig sem ungur kvikmyndagerðamaður er erfitt en Soffía segir öflugan stuðning frá aðilum á Austurlandi hafa átt stóran þátt í að gera myndina að veruleika.
„Austurland stóð virkilega með okkur, bæði fjárhagslega en líka fyrirtæki sem hjálpuðu okkur, auk fólksins sem ég þekkti fyrir. Mikið af fólkinu sem hjálpaði okkur var fólk sem ég hafði tengsl við. Til dæmis borðaði fólkið okkar af tökustað í nokkra daga á Klausturkaffi, þar sem ég vann í nokkur ár. Þau sýndu mér mikinn stuðning. Ég vil líka nefna Skjalasafn Austurlands þar sem ég sótti mikið af heimildum.“
Blandar saman áhuga á sögu og kvikmyndum
Eitt af því sem gerði myndina krefjandi var að hún gerist á ofanverðri 19. öld. Til að hún passi inn í þá tíma þarf að gera búninga sem passa við þann tíðaranda og fyrir þá þarf að finna heimildir. En jafnvel snúnara er að finna tökustaði þar sem 20. öldin í formi steinsteypuhúsa, raflína eða akvega er lítt sýnileg.
„Það var mjög einfalt að láta sig dreyma og skrifa handrit í öðrum tíma, en ekki jafn auðvelt að framkvæma það,“ viðurkennir Soffía. „Upphaflega átti sagan að gerast um miðja 20. öld en þótt það hljómi kjánalega þá var einfaldara að finna tökustaði og leikmuni frá lokum 19. aldar. Við gátum einfaldlega fengið aðgang að torfhúsum og einnig varð sagan sterkari í ytri tíma þar sem ójafnrétti kvenna var meira áberandi.
Pælingin í því sjónræna var að skapa heim í anda loka 19. aldar, en líka okkar eigin heim með blæbrigðum af tímaleysi, þar sem myndin er dæmi um konu sem upplifir vandamál sem er óháð tíma. Þess vegna stemma nokkur smáatriði ekki endilega við tímann.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á sögu og oft íhugað að fara í sagnfræði. Þess vegna var frábært að geta blandað saman tveimur áhugamálum, sögu og sagnfræði. Á bak við handritið er mikil rannsóknarvinna. Hún stóð yfir í heilt ár. Ég er óendanlega þakklát fyrir þá virðingu og vitneskju sem ég hef öðlast um sögu Íslands og íslensku konuna.
Soffía (til hægri) á tökustað ásamt Rakel Ýr Stefánsdóttur, aðalleikkonu. Mynd: Guðmundur Ísak Jónsson
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.