Skip to main content

Dýfðu sér á bólakaf í súrdeigið

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. sep 2025 16:54Uppfært 04. sep 2025 16:55

Victor Varga og Lucie Tatousková eru fólkið á bakvið bakaríið Fjallagrös sem opnaði í gömlu bensínstöðinni á Seyðisfirði í sumar. Bakgrunnur þeirra er ekki í bakstri en Victor fór að læra tæknina fyrir um tveimur árum og gaf sig strax allan í hana.


„Ég var þá að vinna á Öldunni og þegar sumrinu lauk fóru allir heim en ég ákvað að vera hér um veturinn. Fyrst vildi ég læra að baka súrdeigsbrauð fyrir sjálfan mig. Ég sökkti mér í það, byrjaði á að lesa, ræktaði súr og fór að baka.

Ég átti alltaf eitthvað auka sem ég gaf vinum sem sögðu að þetta væri frábært og að ég ætti að selja. Þá gerði ég mér grein fyrir að fólk þarf að fá gott brauð. Í fyrrasumar fórum við í smá samstarf við fyrri rekstraraðila hérna á stöðinni, þannig að ég var eiginlega kominn í tvöfalda vinnu,“ segir Victor.

Hann er fæddur í Ungverjalandi og hefur starfað sem kokkur í 15 ár en kom fyrst til Íslands árið 2020. Hann segir það tilviljun að hann hafi komið þá til Seyðisfjarðar en síðan hefur hann búið þar að mestu.

Umhverfisverkfræðingur í kaffinu


Bakgrunnur Lucie er annar, ekki bara fyrir þær sakir að hún er fædd í Tékklandi og lærður umhverfisverkfræðingur, sem undanfarin ár hefur starfað við forritun. Hún bjó um tíma í Reykjavík, heyrði af tækifærum í kringum Egilsstaði en endaði á Seyðisfirði. „Ég tengist brauðinu hreint ekkert,“ segir hún.

Hún segir þau hafa hist fyrir um ári síðan og hann hafi farið að tala um súrdeigsbaksturinn, sem henni fannst spennandi. „Tveimur dögum síðar hittumst við hér í stöðinni klukkan fimm að morgni og hann fór að sýna mér hlutina. Þannig datt ég inn í þetta.“

Hún segist samt lengi hafa haft áhuga á matargerð. Í bakaríinu sér hún mikið um daglegan rekstur en hún hefur líka sérstaklega tekið að sér að sjá um kaffið þar.

Vilja geta bakað fyrir Seyðfirðinga alla daga


Þau segja að hvatinn að því að taka við rekstrinum í bensínstöðinni, sem rekin hefur verið undir merkjum „Filling Station“ síðustu ár, hafi verið að gera eitthvað sjálf, vinna hjá sjálfum sér og skapa sér sitt.

Þau eru stöðugt að gera tilraunir með efnið. Fjallagrös er með rétt dagsins í hádeginu, reglulega er smurbrauð á boðstólum og að undanförnu hefur verið morgunverður eða dögurður um helgar. Eðlilega býður bakaríið líka upp á sætabrauð og þegar allt kemur til alls eru það kanilsnúðarnir sem njóta mestra vinsælda.

Hugur þeirra stendur til að hafa bakaríið opið allt árið. Í sumar hafa ferðamenn verið þeirra helstu viðskiptavinir en þau segjast fá jákvæð viðbrögð frá bæjarbúum, sem vonandi komi í vetur þegar hægist um. Þau telja það langhlaup að byggja upp bakarísmenningu á Seyðisfirði.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.