Skip to main content

Dreymir um að setja upp hreystibraut við Egilsstaðaskóla

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. jún 2025 15:49Uppfært 23. jún 2025 20:00

Foreldrafélag Egilsstaðaskóla hefur farið þess á leit við Múlaþing að fá leyfi fyrir og hugsanlegan styrk til að setja upp hreystibraut á lítt notuðum túnbletti norðan við skólahúsnæðið.

Hreystibrautir eru orðnar æði algengar víða erlendis og að hluta til hérlendis líka en tilgangurinn með slíkum þrautabrautum er að auka úrval afþreyingar sem jafnframt gæti nýst vel í íþrótta- eða útikennslu. Slíkar brautir jafnframt opnar almenningi til æfinga og útivistar.

Að sögn Sigrúnar Blöndal, deildarstjóra í Egilsstaðaskóla, er ríkur áhugi á að koma upp slíkri braut og foreldrafélagið þegar fengið 300 þúsund króna styrk úr samfélagssjóði Alcoa til verksins. Meira þarf þó til svo vel sé að hennar sögn.

„Við sendum umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings skeyti um þetta fyrir skömmu og þar var tekið fyrir í dag og nokkuð vel tekið í þetta erindi. Það var byrjunin að fá þennan styrk frá Alcoa en það fjármagn dugar skammt fyrir svona hreystibraut. En með skeytinu erum við að koma þessu svona í formlegan farveg svo öll leyfi fáist og sveitarfélagið geti verið með okkur í þessari vinnu.“

Sigrún segir að íþróttakennarar skólans hafi verið að tala fyrir að slíkt svæði myndi henda afar vel og ef allt gengur þá myndi foreldrafélagið sjálft sjá um að afla fleiri styrkja og koma hugmyndinni í framkvæmd með tíð og tíma.

„Við erum viss um að þetta gæti verið ansi skemmtilegt þarna á þessu svæði þarna bak við skólann. Þarna er flöt ein sem er lítið nýtt og þar væri hægt að koma upp smám saman fleiri tækjum og gera þetta að áhugaverðum stað hvort sem er fyrir skólakrakkana eða bara íbúa almennt. Þetta er líka svo nálægt íþróttahúsinu að svona svæði gæti vel nýst beint í íþróttakennslu.“

Aðspurð um hvað slíkt svæði með nokkrum tækjum gæti kostað í heild telur Sigrún að rúmlega milljón krónur þurfi til að gera hlutina vel og örugglega.

„Auðvitað fer kostnaðurinn eftir því hve mörg tæki verða sett upp en við vorum svona að sjá fyrir okkur að ein og hálf milljón króna gæti dugað vel til að koma þessu á koppinn til að byrja með. Ef áhugi er fyrir hendi og vel tekst til mætti svo bæta við tækjum eftir þörfum og plássi.“

Fyrir sitt leyti bókaði umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings að hugmyndin væri góð og hvatti foreldrafélagið til að sækja um frekari styrki til þessa í samfélagssjóð heimastjórnar Fljótsdalshéraðs.

Hreystibrautir hafa verið settar upp nokkuð víða á suðvesturhorni landsins og þessi mynd er úr Reykjanesbæ þar sem hreystibrautarsvæði var opnað fyrir rúmlega tíu árum síðan. Mynd Reykjanesbær