Draugar fortíðar ásækja Austurland: Fólk tengist hlaðvörpum á sérstakan hátt
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. jan 2025 13:02 • Uppfært 22. jan 2025 13:05
Hlaðvarpið Draugar fortíðar stendur fyrir lifandi viðburði í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í kvöld. Slíkir viðburðir njóta vaxandi vinsælda en hafa til þessa verið fáir á Austurlandi. Annar stjórnandanna segir hlustendur hlaðvarpa tengjast þeim á annan hátt en annarri skemmtun.
„Við höfum verið með svona kvöld í Reykjavík sem hafa verið vinsæl. Þess vegna látum við á þetta reyna en við renndum blint í sjóinn með hvort okkar biðu tómir salir um hávetur,“ segir Baldur Ragnarsson sem stýrir hlaðvarpinu með Flosa Þorgeirssyni.
Viðtökurnar lofa góður. Strax í byrjun hringferðarinnar, sem hófst á Selfossi á mánudag, var uppselt á Akureyri á morgun og lokakvöldið sem verður í Reykjavík.
Frá hljómsveitum til hlaðvarps
Baldur og Flosi eru ekki óvanir að ferðast um landið og skemmta fólki. Baldur er meðal annars í hljómsveitunum Ljótu hálfvitunum og Skálmöld auk þess að vera í leikhópnum Lottu en Flosi með hljómsveitinni Ham.
En fyrir áhorfendur er væntanlega annað að mæta á leiksýningu eða rokktónleika með litríkum ljósum og hljómsveit sem djöflast á sviðinu með þeirri orku og tengingu sem fylgir. Í þessu tilfelli kemur fólk til að horfa á tvo karla sem sitja og tala saman um atburði úr mannkynssögunni.
„Fólk tengist hlaðvörpum öðruvísi en til dæmis hljómsveitunum, kynnin verða meiri. Við byrjuðum með hlaðvarpið í Covid-faraldrinum. Þá gátum við engan hitt en um leið og það mátti hittast fengum yfir okkur holskeflu af fólki sem vildi halda áfram sambandi sem til þessa hafði bara verið á annan veginn og líður eins og við þekkjum það. Fólk kemur til að upplifa það sem það hefur gaman af heima.“
Sögur af svæðinu
Viðburðirnir í hringferðinni eru tvískiptir. Fyrir hlé er svipað á öllum stöðum en eftir hlé er farið í sögur af viðkomandi svæðum. Baldur segist ekki vita hvað fjallað verði um í kvöld, Flosi haldi utan um það en segir félaga sinn hafa séð eftir hugmyndinni því undirbúningsvinnan hafi orðið meiri en hann bjóst við.
Það hafi þó gengið vel til þessa. „Flosi mætti mjög vel undirbúinn á Selfoss þannig við vorum með að minnsta kosti helmingi of mikið efni. Á Selfossi töluðum við meðal annars um drauga, gamansögur af svæðinu og sögufrægar byggingar á svæðinu.“
Baldur og Flosi byrja í Sláturhúsinu í kvöld klukkan 20:00.
Mynd: Guðni Hannesson