Skip to main content

Chögma stendur fyrir metalmaraþoni í Egilsbúð

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. ágú 2025 12:49Uppfært 29. ágú 2025 12:53

Hljómsveitin Chögma leiðir metalmaraþon sem haldið verður í Egilbúð í Neskaupstað í kvöld en þrjár aðrar sveitir koma þar fram. Sveitin hefur í sumar spilað tíu tónleika víða um land fyrir tilstuðlan Evrópustyrks sem sveitin hlaut.


„Þetta eru síðustu tónleikarnir, lokahófið, af tíu sem við höldum fyrir styrk frá European Soliditarity Corps. Það styrkir ungt fólk út frá þeirri hugsun að þeir eigi ekki að þurfa að flytja til að upplifa menningu heldur komi hún til þeirra.

Jakob (Kristjánsson, gítarleikari) sótti kynningu hjá Rannís þar sem fjallað var um styrkinn. Hann hringdi í mig strax á eftir og sagði að við yrðum að sækja um,“ segir Elísabet Mörk Ívarsdóttir, söngkona Chögma.

Sveitin hefur í sumar meðal annars spilað á Höfn, Þorlákshöfn og Dalvík og er nýkomin frá Bíldudal og Ísafirði. „Ég held ég hafi verið sú eina í hljómsveitinni sem hafði komið á Vestfirði. Við höfum verið ferðamenn í eigin landi sem er mjög skemmtilegt.“

Efla menningarlíf í dreifbýli


Með tónleikunum hefur Chögma lagt sitt af mörkum til að lyfta upp menningarstarfi á viðkomandi stöðum með því að fá heimasveitir til liðs við sig. „Það hefur gengið ágætlega. Þetta hefur verið frá krökkum í framhaldsskóla upp í afabönd.

Aðsóknin hefur farið úr þremur einstaklingum sem ráfuðu inn á barinn þar sem við vorum að spila upp í á fimmta tug. Á Bíldudal starði 4-5 ára polli á okkur gapandi en svo hefur þetta verið upp í fólk að nálgast nírætt.

Fólk hefur komið til okkar eftir tónleika og sagt að tónlistin hafi ekki verið þess tebolli en það hafi samt verið gaman. Fólki finnst gaman að við komum með eitthvað ferskt og öðruvísi og að sjá unga fólkið af staðnum gera eitthvað skemmtilegt.“

Vinna að stórri plötu


Af Chögma er annars það að frétta að sveitin sendi frá sér smáskífu í lok júní með laginu Veðurfréttum og hefur unnið að því að klára sína fyrstu breiðskífu.

Með Chögma í kvöld koma fram Sárasótt frá Stöðvarfirði og Wendigo og Impazzive frá Selfossi. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Fleira um helgina


Fyrir þau sem aðhyllast frekar sinfóníutónlist má benda á að fimm austfirskar sundlaugar taka þátt í verkefninu „Sinfó í sundi.“ Tónleikar Sinfóníusveitarinnar verða sendir út beint klukkan 20:00 í kvöld og varpað á risaskjái í sundlaugum landsins. Á Austurlandi taka sundlaugarnar á Egilsstöðum, Seyðisfirði, Eskifirði, í Neskaupstað og Selárdal í Vopnafirði þátt.

Þeim sem sækja í partýtónlist er bent á Saint Pete á Aski á morgun laugardag klukkan 23:30 eða á Café Kózý á Reyðarfirði þar sem bingóveisla verður haldin klukkan 22:00 á morgun. Hrærivél verður í aðalvinning. Trúbadorinn Nikola Henriquez heldur uppi stuðinu eftir það.

Þá opnar ný sýning með verkum Rósu Valtingojer á Skriðuklaustri klukkan 14:00 á morgun. Rósa sýnir þar keramikskúlptúra sem hún hefur unnið í sumar. Sýningin stendur út september.

Mynd: Chögma/Sunna Ben.