Byggja upp æðarvarp og dúnvinnslu á Vattarnesi
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. jún 2025 17:21 • Uppfært 06. jún 2025 17:27
Ásta Kristín Guðmundsdóttir Michelsen og Óðinn Logi Þórisson hafa nýlega tekið við búinu að Vattarnesi, yst í sunnanverðum Reyðarfirði. Talsverður skaði varð þar á húsum í óveðrinu sem gekk yfir Austurland í febrúar. Þau ætla sér að byggja þar upp vinnslu á æðardún og ferðaþjónustu.
Ásta Kristín og Óðinn Logi fluttu frá Fáskrúðsfirði, þangað er aðeins 15 mínútna akstur þegar fært er um Vattarnesskriður. Vegtengingin var meðal þess rofnaði í veðurofsanum í vetur.
Íbúðarhúsið er byggt árið 1915 og frá því er gott útsýni yfir Vattarnesvita sem stendur yst á nesinu. Þau fluttu með drauma um að hefja eigin rekstur en eru samt nærri þjónustu, svo sem skóla.
„Okkur líður mjög vel hér. Elsta stelpan mín er ekki svo hrifin af þessu, en henni líkar bara ekki við breytingar, þótt breytingar geti verið góðar," segir Ásta brosandi.
Í vari í kjallaranum
Fjölskyldan hafðist við niður í steyptum kjallara hússins meðan versta veðrið gekk yfir. Hann reif hluta af þakinu af þannig að rigningin komst inn. „Þetta var eins konar skýli. Við erum með baðherbergi og allt í kjallaranum, svo við vorum þar í um tuttugu tíma á meðan veðrið var sem verst. Við vorum ágætlega róleg. Við vorum bara með einn glugga til að sjá hvað var að gerast úti. En við heyrðum ekki þegar þakið barðist til og frá," rifjar Ásta upp.
Þegar veðrið gekk niður, blasti við hörmulegt ástand. Bíll Ástu hafði færst til og brotnað fjórar rúður. Fjárhúsið skemmdist mest – þakið fauk af með þeim afleiðingum að sex kindur drápust. Einnig skemmdist sjóhúsið sem átti að hýsa framleiðsluaðstöðu fyrir æðardúnsvinnslu.
Hjálpin barst frá öllum áttum. Fjölskylda, vinir og íbúar Fáskrúðsfjarðar komu til aðstoðar. „Loðnuvinnslan sendi smiði og aðra starfsmenn til að vinna fyrir okkur í einn dag, og margir bökuðu og buðu okkur mat. Margir unnu hörðum höndum við að koma hlutunum í verk hér. Við erum svo þakklát fyrir alla þá hjálp sem við fengum."
Ásta, sem starfar sem grunnskólakennari á Fáskrúðsfirði, og Óðinn hafa unnið markvisst að því að byggja upp æðardúnsframleiðslu á Vattarnesi síðastliðin þrjú ár. Þau hafa stofnað fyrirtæki, nefnt eftir eyjunni Skrúði, og fjárfest í vél til að hreinsa æðardún.
„Við höfum verið að safna æðardúni og rækta æðarfugla. Við byrjuðum að rækta æðarfugla bara úr bílskúrnum okkar í bænum," útskýrir Ásta. Á einni mynd sem hún sýnir má sjá hóp af ungum andarungum synda í sundlaug í bakgarðinum á fyrra heimili þeirra.
Fjölskyldan öll með í dúntekjunni
Æðarfuglinn nýtur sérstakrar virðingar meðal Íslendinga – mjúkur og verðmætur dúnninn hjálpaði fyrstu landnemunum að komast af í harðbýlu landi. Dúnninn er sá mýksti og léttasti sem völ er á, gerir fuglinum kleift að lifa af kaldan heimskautaveturinn.
Fjölskyldan tekur öll þátt í dúntekjunni. „Við einfaldlega tökum eggin, leggjum þau til hliðar og söfnum dúninum. Ef ungar eru komnir í hreiðrið þá pössum við að þeir hlaupi ekki í burtu. Börnin gæta þeirra á meðan við söfnum dúninum. Síðan setjum við allt aftur á sinn stað og röðum heyi í kringum hreiðrið þannig það verði aftur þægilegt. Fuglarnir hafa eiginlega vanist okkur núna," segir hún.
Árangurinn er að koma í ljós. „Síðasta sumar vorum við með um 70 hreiður á landsvæði Vattarness. Við söfnum líka dúni frá eyju í nágrenninu, Andey. Við sjáum um eyjarnar, og í staðinn fáum við að taka dúninn."
Frá æðardúni til hágæðasængur
Leið dúnsins frá fugli til fullunninnar sængur er löng. „Hreinsun tekur langan tíma. Fyrst þarftu að handhreinsa dúninn, og svo fer hann í gegnum vélarnar. Það er ferli."
Til að setja hlutina í samhengi, eitt hreiður gefur um 15-17 grömm af dúni, en ein sæng vegur um 600 grömm. „Börnin og ég erum með sængur sem við söfnuðum dún í sjálf. Mín er um 700 grömm, og ég vildi ekki setja meira í hana - hún er fullkomin á köldustu mánuðunum."
Stefna á að koma upp dúnhreinsistöð
Hjónin fengu styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands og komið á samstarfi við fyrirtækið Íslenskur dúnn á Borgarfirði eystri til að undirbúa dúnhreinsun. Markmið þeirra er að koma á fót dúnhreinsunarstöð fyrir allt Austurland, sem myndi bæði auka sjálfbærni svæðisins og spara langar flutningsleiðir.
„Við þurfum að senda allan dúninn 500-600 km í burtu til að láta hreinsa hann. Það væri betra fyrir umhverfið ef við þyrftum ekki að senda allt svo langt. Þannig að við gætum þjónað sem stöð fyrir að minnsta kosti Austurfirði," útskýrir Ásta.
En hugmyndirnar ná lengra. „Mig langar að búa til lítinn dýragarð, bara lítinn, eitthvað sem tengir fólk saman. Umhverfi þar sem gaman væri fyrir hópa að hittast. Mig langar líka að kaupa fleiri kajaka... og mig langar að setja upp axarkast - það er bara svo gaman. Bara hlutir eins og þessir, þar sem hópar eða vinir geta komið og gert eitthvað öðruvísi saman. Hugurinn er allur út um allt með hugmyndir," segir hún áhugasöm.
Gistihúsið þeirra, Farm Stay, gengur vel og komandi sumar er nærri fullbókað. Þau vinna nú að því að fá leyfi til að reka gistihúsið allt árið og byggja jafnvel tvö minni hús til viðbótar.
Með æðarfuglum, kindum, hundum og öðrum dýrum fylgir mikil ábyrgð. Óvelkomin dýr eins og minkur geta valdið tjóni, og hver dagur kemur með nýjar áskoranir. En Ásta og Óðinn minna á frægu tilvitnunina: „Bóndi verður að vera bjartsýnn, annars væri hann ekki bóndi!“
Ásta Kristín ásamt syni sínum Víkingi. Mynd: Marko Umicevic
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.