Skip to main content
Sindri Dýrason við hluta verkanna í Vallaneskirkju. Mynd: Aðsend

Búinn að keyra um Austurland og mála það sem fyrir augu ber

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. okt 2025 16:02Uppfært 20. okt 2025 16:00

Myndlistarmaðurinn Sindri Dýrason opnar á morgun listsýningu í Vallaneskirkju. Sindri, sem stundar nám á Hallormsstað, segist fá innblástur af því að keyra um Austurland. Í mestu uppáhaldi eru þó fjöllin á Seyðisfirði þar sem hann er alinn upp.

„Ég ólst upp á Seyðisfirði en flutti síðan til Reykjavíkur og hef eftir það búið nánast alls staðar nema á Austurlandi. Mig langaði að koma aftur austur og skráði mig í skapandi sjálfbærni við Háskóla Íslands á Hallormsstað.

Skólastýrurnar hér voru svo vinsamlegar að veita mér aðgang að herbergi þar sem ég hef komið upp stúdíó. Ég hef málað á hverjum degi síðan ég kom.

Ég keyri um Austurland og mála það sem ég sé. Myndirnar eru meðal annars innblásnar af Kjarval, ég hef farið á slóðir hans í Kjarvalshvamm og á Borgarfjörð. Síðan hef ég Lagarfljótið og Snæfellið hér alltaf fyrir augunum,“ segir Sindri.

Í einni ferðinni kom Sindri við í Vallaneskirkju. „Mér leist vel á þannig ég fór í símaskrána og hringdi í Eymund (Magnússon, bónda). Hann er mikill listunnandi og því afar opinn fyrir hugmyndinni,“ segir Sindri.

Sindri útskrifaðist með BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2023. Hann hefur síðan haldið sýningar bæði hérlendis og í Noregi en ein þeirra var á Vesturvegg Skaftfells í vor. 

Á sýningunni verða níu málverk og nokkrar teikningar. Opnunin verður á morgun frá klukkan 17-20. Á henni mun Guðrún Veturliðadóttir, tónlistarkennari á Seyðisfirði, spila á gítar og syngja. Sýningin sjálf verður síðan í kirkjunni út veturinn.