Bremsurnar biluðu

Bilaðar bremsur voru aðalástæða þess að rúta með 38 farþegum fór út af í Bessastaðafjalli í lok ágúst. Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa sem kom út í dag.

Lögreglumenn virða fyrir sér vettvang slyssins. Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Meginorsök slyssins var að bremsur rútunnar voru ekki í lagi. Gat var á blöðku (membru) í hægra afturhjóli þar lak út loft þegar bremsað var. Væri bremsað lengi dró úr loftþrýstingi.

Sjálfvirkar útíherslur voru skemmdar í þremur hjólum af fjórum. Bremsuskál þess hjóls þar sem herslan var í lagi hitnaði meira en aðrar sem er merki um meira álag. Rannsóknarnefndin leggur til að reglulegum bremsuprófunum hópbifreiða verði fjölgað.

 

Ofsahræddir farþegar reyndu að komast út

 

Í skýrslunni er haft eftir ökumanninum að hann hafi ofarlega í brekkunni skipt um gír til að hægja á henni. Að auki hafi hann beitt mótorbremsu, handbremsu og fótbremsu. Fljótlega áttaði hann sig á að rútan var næsta bremsulaus. Hann lét farþega vita og leitaði að heppilegum stað til að keyra út af.

 

Mikill ótti greip um sig meðal farþega. Sumir stóðu upp og reyndu að komast út. Einum tókst það og meiddist mikið. Margir stóðu þegar rútan fór út af og þeir köstuðust framarlega í hana þegar hún stöðvaðist.

 

Rétt viðbrögð bílstjóra

 

Bílstjórinn hafði ekki keyrt rútuna áður og sjaldan keyrt niður Bessastaðafjall. Í skýrslunni segir að hann hafi gert rétt þegar hann valdi útafakstursstað og kom þannig í veg fyrir að rútan ylti.

 

Samkvæmt ökuritaskífu var rútan á um 60 km/klst hraða þegar hún kom í brekkuna og 38 km/klst þegar rútan fór út af.

 

Sætin losnuðu

 

Ástandi sæta, sætisfestinga og bílbelta var mjög ábótavant. Fjórir sætisbekkir í rútunni losnuðu alveg og tólf færðust úr stað. Skipt hafði verið um sæti í rútunni síðan hún var framleidd. Festingar nýju sætanna pössuðu ekki við sleða fyrir sætafestingar yfirbyggingarinnar.

Bílbelti hjálpuðu þeim lítið sem voru í sætum þar sem sætisfestingar voru ekki í lagi. Fimm farþegar voru enn í sætum sínum þegar rútan stöðvaðist.

 

Starfshópur sem aldrei var skipaður

 

Rannsóknarnefndin vill að tryggt verði að viðhaldi og viðgerð öryggisbúnaðar hópbifreiða verði einungis sinnt af aðilum sem hafa til þess sérþekkingu. Bent er árið 2000 hafi nefnd á vegum dómsmálaráðherra lagt til að öryggisbelti í hópbifreiðum yrði lögleidd. Sú nefnd vildi að skipaður yrði starfshópur sem gerði úttektir á frágangi og festingum ísettra öryggisbelta. Sá hópur var aldrei skipaður.

 

Rannsóknarnefndin telur nauðsynlegt að skoða vandlega frágang sæta í þeim hópbifreiðum sem bílbeltum hefur verið bætt í á Íslandi. Þessi máli eigi tafarlaust að taka til skoðunar.

 

Vegmerkingum ábótavant

 

Umhverfi vegarins þykir varhugavert og merkingum ábótavant. Rannsóknarnefndin telur að betur hefði mátt merkja hve vegurinn er brattur og beygjur krappar, í ljósi þeirra slysa sem orði hafa á staðnum. Umhverfi vegarins við beygjuna þykir ekki gott þar sem mjög bratt er fram að veginum

 

Rannsóknarnefndin lagði til að malarpúði yrði gerður við beygjuna sem hægt væri að stýra bílum út á ef bílstjórar sæju ekki fram á að ná beygjunni. Eigandi vegarins, Landsvirkjun, lét gera hann í haust. Fyrirhugað er að setja upp fleiri merki til viðvörunar og um leiðbeinandi hraða.

 

Góð viðbrögð viðbragðsaðila

 

Níu hlutu mikil meiðsli í slysinu en alls slösuðust sextán. Tólf voru fluttir með sjúkraflugi til Reykjavíkur og Akureyrar en fjórir með sjúkrabifreiðum til Norðfjarðar. Nefndin telur viðbrögð viðbragðsaðila við hópslysinu hafa verið góð og björgun gekk snurðulaust fyrir sig.

 

Rútan var af gerðinni Mercedes Benz með sætum fyrir 41 farþega. Hún fékk skoðun án athugasemda í maí 2007.

 

Fréttamynd Egils Gunnarssonar af rútuslysinu, ljósmyndara á vegum Austurgluggans, er meðal mynda á sýningu sem haldin er í tilefni 112 dagsins. Sýningin er á fyrstu hæð Kringlunnar.

 

Skýrsluna í heild sinni má lesa með að smella hér .

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.