Skip to main content

Boða til málþings um áhrif vindorkuvera

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. apr 2025 09:14Uppfært 03. apr 2025 09:15

Náttúrverndarsamtök Austurlands og Landvernd standa í kvöld fyrir málþingi á Egilsstöðum áhrif vindorku á náttúru. Nokkur svæði á Austurlandi eru til skoðunar undir vindorku.


Samkvæmt dagskrá verða fimm erindi á málþinginu. Í fyrsta lagi mun Þorvarður Árnason, forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Íslandi fjalla um áhrif á landslag og víðerni en bók hans um íslensk víðerni er nýkomin út.

Vigdís Freyja Helmutsdóttir, líffræðingur frá Landi og skógi, ræðir um áhrif vindorkuvera á búfénað og gróðurfar, Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur, fer yfir rannsóknir sem til eru um áhrif vindmylla á fugla, Andrés Skúlason, starfsmaður Landverndar og fyrrum oddviti Djúpavogshrepps, verður með erindi um umhverfi og samfélag og Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, ræðir um vindorkunýtingu á forsendum sveitastjórna.

Nokkur svæði á Austurlandi hafa verið til skoðunar með tilliti til vindorkunýtingar. Í fyrsta lagi eru það svæði á Fljótsdalsheiði. CIP eða Orkugarður Austurlands hafa skoðað svæði þar til að knýja rafeldsneytisverksmiðju á Reyðarfirði, Zephyr í Klausturseli auk þess sem Landsvirkjun kannar þar möguleika.

Athuganir hafa verið gerðar á möguleikum vindorku á milli Vopnafjarðar og Bakkafjarðar auk þess sem Bremenports, sem stendur að baki hugmyndum um stórskipahöfn við Finnafjörð, hefur viðrað hugmyndir um vindorkuver þar til að framleiða rafeldsneyti. Að lokum má nefna áform Orkusölunnar um vindmyllur í nágrenni Lagarfoss virkjunar.

Fundurinn hefst klukkan 19:00 og er haldinn í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.