Blómastúlkan á Reyðarfirði
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. ágú 2025 18:40 • Uppfært 27. ágú 2025 18:53
Þegar komið er inn í íbúð Paulinu Bak á Reyðarfirði er augljóst að hún hefur mikinn áhuga á blómum og plöntum. Þær eru alls staðar: á hillum, svölunum, hangandi niður úr loftinu. Á stóru borði í stofunni standa listaverkin hennar, handgerðar flísar sem hún hefur steypt í plöntur úr nærumhverfinu.
Paulina lauk meistaragráðu í landslagsarkitektúr frá háskóla í Wrocław í Póllandi. Fyrir fimm árum flutti hún með fjölskyldu sinni til Íslands og hóf nýtt, friðsælt líf „á heimsenda,“ eins og hún orðar það.
Hún átti gott líf í Póllandi, þar sem hún rak garðyrkjufyrirtæki með eiginmanni sínum Mateusz, en þegar sonur þeirra fæddist vildu þau friðsælla líf í minna samfélagi þar sem sonur þeirra gæti alist upp áhyggjulaus.
Ísland varð fyrir valinu því hún átti frænda hér sem gat hjálpað þeim inn í samfélagið og þau kunna vel við sig á Reyðarfirði. „Við erum í góðri vinnu og erum ánægð með allt. Okkur finnst þetta vera virkilega góður staður. Við eigum marga nána vini í kringum okkur og sonur okkar á líka marga nána vini. Við erum alltaf að hjálpa hverju öðru. Ef við þurfum hjálp, þá koma þau. Ef þau þurfa hjálp, þá erum við líka til staðar fyrir þau.“
Sinnir trjám og runnum fyrir Fjarðabyggð
Paulina vinnur fyrir umhverfissvið Fjarðabyggðar. „Ég er blómastúlka," segir hún glaðlega. „Ég sé um sumarblóm, tré og runna, og ég skipulegg vinnu fyrir krakkana í unglingavinnunni. Þegar veðrið er ekki of vont á veturna förum við út til að klippa tré og runna. Ef veðrið er virkilega vont, þá erum við inni og lögum eða smíðum nýja bekki og gerum við leikvelli.“
Síðan hún flutti hingað frá Póllandi, þar sem flóran er öðruvísi, hefur hún þurft að aðlagast þeim aðstæðum að hafa aðeins nokkra mánuði til að klára allt. „Þetta er algjörlega öðruvísi garðyrkja. Plönturnar hér eru allt öðruvísi og það þarf að klippa þær á öðrum tíma,“ segir hún.
Líka listaverk af plöntunum
Gróðurlist hennar sannar hversu ástríðufull hún er gagnvart plöntum. Fyrir tveimur árum byrjaði hún að safna staðbundnum plöntum og búa til afsteypur af þeim í gifsi. Stundum festir hún þessar gróðurafsteypur í gamla viðarramma og skapar þannig gróðurlist, uppfulla af næmum smáatriðum. Sumar þeirra eru festar við band og hanga á vegg. Hver plöntuafsteypa er einstök – frá lúpínu og vallhumli til reyniberja og valmúa.
„Ég var að leita að einhverju sem ég gæti gert. Það var aðallega til að hjálpa mér að slaka á og hafa eitthvað til að halda huganum uppteknum, því þegar ég geri þetta, þá slekkur hugur minn alveg á sér. Ég á líka í vanda því þegar ég reyni að teikna eða mála eða eitthvað, þá reyni ég að vera of fullkomin. Fyrir mér er ekkert nokkurn tímann nógu fullkomið. En með plöntur, þær eru virkilega fullkomnar, svo þetta er mín leið til að varðveita þær nákvæmlega eins og þær eru,“ segir hún.
Mynd: Marko Umicevic
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.