Skip to main content

Bjóða gestum í heimsókn í tilefni 40 ára afmælis Hótels Breiðdalsvíkur

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. jún 2025 13:21Uppfært 16. jún 2025 13:21

Opið hús verður á Hótel Breiðdalsvík á morgun í tilefni þess að hótelið orðið 40 ára og hátíðahöld Fjarðabyggðar á 17. júní verða í þorpinu. Hótelið hefur breytt nokkrum sinnum um svip á þessum tíma.


„Ég sá Hótel Bláfell auglýst til sölu í Morgunblaðinu um jólin 2008. Ég hafði reyndar séð það auglýst áður og var því búinn að hugsa málið í dágóðan tíma. Ég ákvað að keyra austur, heiman frá mér úr Njarðvíkunum og lagði af stað klukkan sex að morgni 7. janúar 2009 með Árna vini mínum.

Það var aðallega gert til þess að koma þeirri fáránlegu hugmynd að kaupa hótel á Breiðdalsvík út úr hausnum á mér. Ég varð bara að fara þarna til þess að hreinsa hugann og segja sjálfum mér að ég ætlaði ekki að kaupa þetta, en það vildi ekki betur til en að ég keypti hótelið daginn eftir,“ segir Friðrik Árnason.

Til að gera langa sögu stutta þá mistókst að koma hinni „fáránlegu hugmynd“ úr kollinum á Friðriki því hann keypti það og hefur rekið frá árinu 2009.

Upphafið


Hótel Breiðdalsvík var reist á árunum 1982-1983 af hjónunum Guðnýju Gunnþórsdóttur og Skafta Ottosen. Hótelið var formlega opnað vorið 1983 og voru í upphafi átta herbergi auk veitingastaðar. Fyrstu árin voru helstu gestir hótelsins sumarferðamenn, en yfir vetrarmánuðina voru þar einkum sölumenn og starfsmenn sem tengdust frystihúsinu á staðnum. Heimamenn létu og svo ekki sitt eftir liggja og nutu þeir veitinga á hótelinu, þar sem útgerð á Breiðdalsvík tryggði gott mannlíf og eftirspurn eftir slíkri þjónustu.

Árið 1987 réðust Guðný og Skafti í stækkun hótelsins og bættu við sjö nútímalegum herbergjum, öll með sérbaðherbergi og nútíma þægindum þess tíma fyrir gesti. Veitingastaðurinn var einnig stækkaður og tók þá um 100 gesti í sæti. Þetta leiddi til þess að stærri viðburðir og veislur gátu verið haldnar á hótelinu, sem auki styrkti sess sinn í samfélaginu.

Nýir eigendur og frekari vöxtur


Hjónin seldu hótelið árið 1998 til Helgu Jónsdóttur og Vilhjálms Walterssonar. Þau byggðu við hótelið bjálkahús með 10 herbergjum til viðbótar auk setustofu með arni gesti. Hótelið var svo aftur selt árið 1999 til Njáls Torfasonar og Kristínar Ársælsdóttur, sem áfram lögðu áherslu á gestrisni og góðan mat, sem hótelið var þekkt fyrir.

Á tíma Njáls og Kristínar voru 5 herbergi á efri hæð, sem áður voru án baðherbergja, endurbætt og fengu öll sérbaðherbergi. Hótelið var þá komið upp í 22 herbergi öll með sérbaði. Einnig var þá farin sú stefna að hafa hótelið opið allan ársins hring, þó að vetrarferðamennska væri enn á byrjunarstigi á svæðinu.

Áframhaldandi þróun hjá núverandi eiganda


Eftir 10 ár á vaktinni seldu Njáll og Kristín hótelið til Friðriks Árnasonar árið 2009. Friðrik hefur rekið hótelið af krafti og lagt mikla vinnu í endurnýjun og uppbyggingu. Friðrik hefur einnig látið til sín taka með aðrar byggingar á Breiðdalsvík en hann breytti gamla pósthúsinu í hótel, ásamt því að taka Kaupfjelagið og opna þar kaffihús, veitingastað og verslun. Einnig breytti hann frystihúsinu í stóran veitinga- og fundarsal sem getur tekið allt að 400 manns og nýtist vel fyrir viðburði og menningar uppákomur.

Við endurnýjun á Hótel Breiðdalsvík og framþróun þess hefur verið lögð áhersla á sjálfbærni og meðal annars verið nýttur viður úr Hallormsstaðaskógi. Hótelið fékk Hvatningarverðlaun íslenskrar ferðaþjónustu árið 2022 fyrir sjálfbærni- og starfsmannastefnu sína.

Opið hús á 17. júní


Opið hús verður á Hótel Breiðdalsvík frá 13:30-14:30 á morgun. Meðal annars verður opið inn í nokkur herbergi. Frítt kaffi og kökur eru líka á boðstólunum 13:30-17:00.

Þjóðhátíðardagskráin sjálf hefst klukkan 12:45 með skrúðgöngu en síðan verður dagskrá í miðbænum.