Bjóða gestum að skoða endurnýjaðan gamla barnaskóla Eskifjarðar
Síðdegis í dag gefst áhugasömum kostur á að reka inn nefið í nánast hundrað prósent endurnýjaðan gamla barnaskólann á Eskifirði en að endurbótum á þessu 116 ára gamla húsi hefur nú verið unnið að um fimm ára skeið.
Það er fyrir tilstuðlan Hollvinafélags gamla barnaskólans sem endurnýjun þessa merka húss hefur staðið yfir og gengið vel síðustu árin. Verkið nánast fullklárað en það er húsasmíðameistarinn Pétur Karl Kristinsson og hans teymi sem séð hafa um endurbæturnar frá fyrstu stundu og ríkir mikil ánægja með hvernig til hefur tekist meðal félagsmanna Hollvinafélagsins sem telja vel yfir 400 manns. Húsið orðið mikil bæjarprýði þar sem það stendur hátt yfir Strandgötunni á Eskifirði.
Hús fyrir alla
Aðalfundur Hollvinafélagsins verður einnig síðdegis í dag en milli klukkan 16.30 og 17 er húsið opið skoðunar fyrir alla sem áhuga hafa að kynna sér hvernig eitt elsta hús Eskifjarðar hefur tekið stakkaskiptum til hins betra. Af því tilefni mun bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Jóna Árný Þórðardóttir, halda erindi, en hugmyndin af hálfu Hollvinafélagsins er að afhenda húsið sveitarfélaginu til eignar formlega þegar allri vinnu lýkur þar í haust. Þegar er búið að finna húsinu hlutverk að hluta til því þar opnar rannsóknarsetur Háskóla Íslands í menntavísindum um leið og smiðirnir ljúka sinni vinnu.
Guðmundur Árnason, formaður Hollvinafélagsins, hvetur alla áhugasama til að líta við og þeir margir því skólahúsnæðið var nýtt langt fram á áttunda áratug síðustu aldar og því fjölmargir íbúar sem eiga þaðan minningar af einu eða öðru taginu.
„Það er opið hús frá hálffimm áður en við hefjum svo aðalfundarstörf um fimm leytið í dag. Þetta er mjög óformlegt allt saman. Á þessu stigi er ekkert meira ljóst með notkun hússins fyrir utan að Háskóli Íslands flytur þar inn með rannsóknarsetur. En það var í samningi þeim sem við gerðum við sveitarfélagið á sínum tíma að húsið myndi nýtast nærsamfélaginu og Austurlandi öllu. Þannig að þetta verður ekki lokað hús. Þarna mun verða hægt að fara inn með ýmis konar viðburði og starfsemi eða hvað annað sem fólk hefur áhuga á að nýta húsið til.“