Skip to main content

Bjóða gestum á Tæknidag fjölskyldunnar í tíunda skiptið

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. apr 2025 10:54Uppfært 03. apr 2025 11:42

Á laugardaginn kemur verður Tæknidagur fjölskyldunnar haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands en það verður í tíunda skiptið sem þessi vinsæli viðburður fer fram og útlit fyrir að veðurguðirnir verði í sérstaklega góðu skapi.

Tæknidagurinn er tileinkaður tækni, vísindum, nýsköpun og þróun á Austurlandi og tekur sífellt umfangsmeiri dagskrá Tæknidagsins ávallt mið af þeim mismunandi aldurshópum sem viðburðinn sækja ár hvert. Hvort sem um verður að ræða leikskólabörn eða eldri borgara er eitthvað forvitnilegt að sjá og prófa á þeim fjórum stöðum sem viðburðir fara fram. Þar um að ræða íþróttahús Neskaupstaðar, verknáms- og bóknámshús Verkmenntaskólans og þá er einnig dagskrá á bílastæði skólans.

Of langt mál yrði að fara yfir allt það sem gestir geta skoðað og eða prófað á laugardag en aðspurð segir einn skipuleggjenda, verkefna- og gæðastjórinn Petra Lind Sigurðardóttir, sérstaklega gaman að nú verði ekki aðeins Háskóli Íslands með vísindasmiðju heldur bjóði Háskólinn á Akureyri einnig upp á slíkt.

„Það er úr svo miklu að velja að það varla hægt að tiltaka eitthvað umfram annað. En það er mjög gaman að fá Háskólann á Akureyri með okkur nú enda er þeirra vísindasmiðja sérstaklega ætluð allra yngsta fólkinu og til dæmis hægt að leika sér og byggja með lýsandi Legókubba. Þá er líka mjög gaman að fá hana Sprengju-Kötu til okkar með ýmsar skemmtilegar efnafræðitilraunir. Svo er gaman að segja frá því að veðurspáin á laugardaginn kemur lítur út fyrir að vera algjört bongó sem er kjörið fyrir þá viðburði utandyra sem við bjóðum upp á á bílastæðinu okkar en þar nokkrir aðilar að kynna sitt fyrir áhugasömum.“

Dagskráin hefst formlega á laugardag klukkan 12 og stendur til klukkan 16. Hér má sjá alla viðburði í boði að þessu sinni.

Fullt stím áfram eða hart í bak? Forvitnir gætu lært hvað það þýðir í skipstjórnarkennslugræjum Verkmenntaskólans. Mynd VA